„Háskólalífið á Akureyri er einstakt“

„Háskólalífið á Akureyri er einstakt“

Lilja Margrét, stúdent í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri er viðmælandi vikunnar í nýjum lið þar sem Kaffið kynnir sér mannlífið í skólanum. Lilja er jafnframt fulltrúi stúdenta í Háskólaráði skólans, situr í Gæðaráði og er gæðastjóra Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS). 


  • Í hvaða námi ert þú? 

Ég stunda nám í iðjuþjálfunarfræði við Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri  

  • Af hverju valdir þú þetta nám? 

Ég vann náið með iðjuþjálfum og fannst það spennandi starf. Svo hef ég áhuga á að starfa með fólki og aðstoða það en einnig hafa áhrif á samfélagið, iðjuþjálfun snýr bæði að einstaklingum en einnig umhverfi og mér fannst það ótrúlega heillandi nálgun. Einnig er greinin mjög þverfagleg og því mörg atvinnutækifæri að námi loknu. 

  • Hvers vegna valdir þú HA? 

Ég valdi Háskólann á Akureyri aðallega vegna þess að hann er eini háskólinn hér á landi sem býður upp á nám í iðjuþjálfunarfræði. Það spilaði inn í að ég hafði heyrt góða hluti um persónulega nálgun í háskólakennslu og að ég ólst upp að hluta til á Akureyri, var í MA og finnst Akureyri frábær staður. 

Sjá einnig: „Helsti kosturinn auðvitað að skólinn er staddur í nafla alheimsins, á Akureyri“

  • Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri? 

Háskólalífið á Akureyri er einstakt. Þetta er lítill háskóli og svo er allt nám við skólann sveigjanlegt svo það eru ekki öll á háskólasvæðinu dagsdaglega en þau sem eru hér norðan heiða nýta sér aðstöðuna í skólanum og milli þeirra einstaklinga skapast einstaklega náið og fallegt samband þvert á nám og deildir, sem er fremur einstakt á Íslandi. 

  • Hvað ber framtíðin í skauti sér að loknu námi? 

Mig langar að starfa sem iðjuþjálfi, annaðhvort eitthvað tengt endurhæfingu eða geðinu, í fyrra fór ég í vettvangsnám á Reykjalund í Mosfellsdal og sé það sem smá draumastað fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Svo eftir einhver ár úti á vinnumarkaðinum langar mig í frekara nám, annaðhvort erlendis eða í einhverjum af háskólunum hér heima, til þess að sérhæfa mig frekar og styrkja mig sem fagaðila. 

  • Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? 

Setja markið að því að hafa jafnvægi í daglegu lífi og eiga fyrir blómum og kertum í hverjum mánuði. 

  • Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hefja nám við háskólann?

Takið þátt og verið óhrædd við að segja ykkar skoðanir, sama hvort það varðar námið ykkar eða stærri mál eins og menntasjóðsmál eða annað sambærilegt. 

Sjá einnig: „Háskólalífið á Akureyri er einstaklega gott“

  • Hvað gerir háskólann sérstakan að þínu mati? 

Persónuleg nálgun í kennslu og samfélag sem stuðlar að þátttöku stúdenta í starfi skólans. Ég hef fengið tækifæri til þess að vera fulltrúi stúdenta í gæðaráði skólans sem hefur opnað ýmsar dyr að frekari tækifærum þegar kemur að því að stuðla að öflugu gæðastarfi háskóla á Íslandi. 

  • Hvar er besti staðurinn til þess að læra? 

Það fer aðeins eftir því hvað maður er að gera. Ef ég er að skrifa ritgerð eða vinna samantekt úr matstæki þá fer ég á Teppið. En ef ég er að læra þunga taugalíffærafræði þá fer ég beint upp á bókasafn til að fá ró og frið. En það er samt best að læra í iðjuþjálfunarfræðistofunni okkar. 

  • Hvernig er kaffið í HA?

Það er mjög fjölbreytt og öll ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, sama hvort maður er lattelepjandi lopatrefill eða bara mjög gamaldags og vill sitt pumpukaffi. Sjálf fer ég oftast í nespresso eða fæ mér kaffi uppi á skrifstofu Stúdentaráðs. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó