Háskadans. Kveðja, Krasstófer og Ormur

Háskadans. Kveðja, Krasstófer og Ormur

Norðlenska listamanna tvíeykið Krasstófer og Ormur gefa út vikulega pistla hér á Kaffinu um hin ýmsu málefni. Pistlarnir eru birtir hér á þriðjudögum. Pistillinn þessa vikuna ber titilinn „Háskadans.“ Skopmyndir sem fylgja pistlunum eru einnig eftir Krasstófer og Orm.

Háskadans

Að hringja í Heilsuvernd, fyrir hvern er það? Ég væri til í að heyra sögu þar sem þau bjarga mannslífum. Það myndi setja alla mína trú á þau.

Ég verð veikur, ég hringi inn. „Hæ, ég þarf að skrá veikindi í dag.“ Svo er beðið um kennitölu og hver vinnustaðurinn sé, o.s.frv., og svo endar þetta alltaf á:

„Mætti ég spyrja hvað er að?“

„Ég er veikur, ég er með hita, hósta, illt í andlitinu, og búinn að pissa á mig síðan ég var fimm ára.“

„Ahh, flensa.“

„Jebb.“

„Láttu þér batna, bless bless.“

En hvernig líður henni? Hvern hringir hún í þegar hún er veik? Ég segi hún, en ekki þeim, því mér líður eins og það sé alltaf sama konan sem ég tala við. Greyið sem ég lýg að (eða svo mér finnst). Mér finnst eins og hún haldi að ég sé aldrei veikur, og ég held að hún heyri bara lygar. Mér líður eins og ég þurfi að réttlæta veikindi mín. Ég sný höfðinu á hvolf þegar ég hringi og læt mig hnerra með því að slíta hár úr hala mínum og leggja það við nef mitt. Þetta geri ég veikur til þess að auka á veikindi mín, svo hún haldi að ég sé ekki að svíkja hjónaband Heilsuverndar og vinnuveitanda míns. En hún sér í gegnum mig, og setur mig á lista yfir lygara sem sé best að hunsa, en hún getur ekki sannað neitt. Því dönsum við þennan dans og leikum þennan leikþátt aftur og aftur, ég og ástin mín í símanum.

Veikindi eru svo almenn að við kippum okkur ekki upp við þau. Ég átti hund í 10 ár, og ég sá hann aldrei veikann. Það virðist vera svo að ef dýr veikjast, þá deyja þau. Það eru eflaust margir með sögu um dýr með flensu, en ég trúi því ekki. Jafnvel þó ég myndi sjá það sjálfur, myndi ég ekki trúa því. Þetta kann að hljóma ansi barnalega, en við eigum að halda í barnið í okkur.

Þetta er eitthvað sem ég myndi segja röddinni í símanum frá, ef ég þyrði að vera oftar veikur. En hún myndi hlægja og segja, „Þú ert fárveikur, elsku barn. Þú þarft að hitta lækni,“ og ég myndi öskra af öllum sálarkröftum, „Ef það að vera ástfanginn eru veikindi, þá er ég ólæknandi, beibí!“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó