Hamingjusama landið Ísland!

Sigurður Guðmundsson skrifar:

Þá er maður kominn heim. Það virðist vera sem svo, að það er sama hvað maður ferðast langt eða stutt frá heimahögunum að þá er alltaf gott að koma heim. En samt er tilfinningin að breytast. Mér er farið að leiðast þetta umhverfi. Þegar ég ferðast reyni ég að setja mig inn í hugarheim íbúa þeirra landa sem ég heimsæki. Margt hafa þessi ferðalög kennt mér. Þá sérstaklega það að við erum langt því frá að búa í besta landi í heimi. Vissulega er hér gnægð lífsgæða en þeim er verulega misskipt og í algjörri afneitun fljótum við með straumnum gagnrýnislaust. Við erum annaðhvort alkahólistar upp til hópa eða meðvirkir aðstandendur sem viljum sýna á yfirborðinu að hér sé allt með felldu.

Mesti munurinn sem maður finnur er líklega innræti okkar íslendinga. Hvernig við hugsum um hvert annað og þá sem heild. Kannski erum við öll svona gráðug að við gleymum um hvað þetta í rauninni snýst um en það er hamingja. Þá meina ég fyrir alla. Við skorum alltaf efst í öllum könnunum þar sem lífshamingja er mæld. Hér er allt svo stórkostlega frábært að það er í raun skrýtið að hér búi ekki milljónir manna í þessu hamingjusama landi. Þetta er minnimáttarkenndin sem lætur okkur ljúga viðstöðulaust.

Við skulum aðeins renna yfir þessi frábæru lífsgæði sem eru svona umtöluð. Húsnæði telst nú svona til fyrstu hluta sem fólk hugsar til. Hér er það stjarnfræðilega dýrt. Ég tel mig hafa það ágætt en hugsa til þess með hryllingi hvernig börnin mín eiga að koma sér upp húsnæði. Það er eiginlega vonlaust. Þá geta þau kannski leigt en þá er nú vissara að þau séu í sambúð því laun annars einstaklingsins fer í að borga leigu fyrir einhverja kytruna. Þetta var ekki svona. Íbúðarverð er viðbjóður á Íslandi og ástandið gerir ekkert annað en að versna. Þetta er hvergi svona í heiminum.

Eitthvað þurfum við að borða líka. Það er nú ekki alveg ókeypis frekar en annarsstaðar. Það er bara heldur dýrara hér.
Dýrtíð er eitthvað sem við troðum ofan í kokið á okkur alla daga líkt og gæs á vegg værum (svona foie gras framleiðsla). Sama hvar við setjum krónurnar okkar er tilfinningin ætíð sú sama. Við finnum til í rassinum, ekki bara þegar við erum að skila matnum frá okkur. Það er ekki sanngirni í nokkrum sköpuðum hlut. Engum. Að fara með fjögurra manna fjölskyldu og fá sér hamborgara kostar 10 þúsund kall. Þetta er hvergi svona í heiminum. Hvergi.

Það ætti svosem ekki að kvarta fyrir þessari dýrtíð. Hér er næga vinnu að fá. Þú þarft reyndar að vinna einsog skepna til að eiga fyrir þessu. Þá missir þú af lífinu sjálfu því þú ert alltaf að reyna að vinna fyrir því. Þú gleymir að lifa. Síðan deyrðu og uppgötvar í næst síðasta andardrættinum þegar börnin þín halda í hönd þína að tíminn sem þú vildir eyða í sönnum lífsgæðum er liðinn. Lífsgæðin týndust í vinnuþrælkun. Það er ógnvænleg tilhugsun.

Menntamál á Íslandi eru í einu orði sagt og þá er á engan hallað stórkostlega ofmetin. Ofmetin að því leytinu til að það virðist vera sama hvað við setjum mikla peninga í málaflokkinn að við virðumst ekki skríða upp töfluna í samanburði við árangur nemenda í öðrum löndum. Ekki er einu sinni hægt að halda hér samræmd próf án þess að það fari beint í ruslið. Ábyrgðin er auðvitað engin og tómaturinn sem situr sem ráðherra situr sem fastast. Það hefði verið eðlilegt að reka einhvern í þessu tilfelli en ekki í þessu gerspillta pólitíska landi.

Spilling er staðreynd á Íslandi. Hún er kannski ekki í sama formi og í mörgum öðrum löndum. Brún umslög með seðlabúntum fara líklega ekki mikið milli fólks heldur er þetta framkvæmt frekar með valdaskiptingu og stjórnvaldslegum ákvörðunum sem eru ákveðnum hópum í samfélaginu hagfelldar. Það er versta dæmi spillingar.

Heilsugæsla er hér ágæt og fá flestir þá þjónustu sem þeir þurfa. Það tekur reyndar 200 ár að reisa hér nýjan spítala en tvo daga að lækka skatta á stóreignamenn og útgerðir. Þannig að aldrei verður til aur fyrir þessum framkvæmdum. Nenni ekki einu sinni að fara í þessa umræðu eina ferðina enn.

En eitthvað hlýtur nú að vera gott að búa á Íslandi. Það er í raun fjölmargt. Hér er hreint loft víðast hvar og sæmilegt drykkjarvatn. Við höfum reyndar ekki haldið því mikið á lofti en ef við lítum aðeins til baka þá hafa íbúar á nokkrum svæðum á landinu þurft að sjóða drykkjarvatn. Svoleiðis er það víða í Afríku líka. Svo var eitthvað vesen með hreina loftið á suðurnesjum þarna um daginn. Þar þarf að kenna fólki að loka gluggum því þá er málið leyst.

Hér er líka öruggt að vera. Þá sérstaklega í miðborg Reykjavíkur um helgar. Þar eru góðar líkur á að vera limlestur ef maður gengur ekki með veggjum. Stundum er það ekki nóg. Menn eru barðir í klessu fyrir ekki neitt. Vegakerfið er líka afar öruggt líka. Í besta falli hálfónýtt en í versta falli handónýtt. Millivegurinn víðfrægi er þarna einhversstaðar líka en hann er lélegur heilt yfir.

Hér er almenn venja að setjast niður og ræða málin. Tala sig niður að sameiginlegri niðurstöðu til að fá sem víðtækasta sátt um stór málefni.

Ég er að grínast.

Hver er þá eiginlega niðurstaðan af þessu svartsýnisrausi?

Ég hef eytt ævinni í að reyna að bæta hlutina í kringum mig. Lagt ómælt á mig til að svo gæti verið. Nú set ég hattinn líklega upp aftur. Skoða hnattlíkanið, sný, loka augunum og rek fingurinn á einhvern spennandi stað þar sem ekkert af ofangreindu er til að dreifa. Finn mér nýjan samastað um tíma. Ég vona a fingurinn stöðvist á Zanzibar.

Lifið heil.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó