Hamingjuóskir til Háskólans á Akureyri

Hamingjuóskir til Háskólans á Akureyri

Ingibjörg Isaksen skrifar:

Mikilvægri vörðu á langri leið Háskólans á Akureyri til framtíðar hefur nú verið náð. Það er nokkuð víst að Háskólinn á Akureyri er rétt að byrja sína sókn. Frá stofnun hefur vöxtur háskólans verið hraður. Við höfum fengið að fylgjast með Háskólanum á Akureyri verða að einni helstu mennta- og rannsóknarstofnun landsins sem sýnt hefur fram á hvernig hægt er vaxa í síbreytilegum tækniheimi. Námsframboð hefur aukist jafnt og þétt og nám hefur eflst svo um munar. Nemendafjöldi Háskólans á Akureyri hefur aukist á ári hverju, en það er ekki skrýtið þar sem háskólinn hefur fengið viðurkenningu frá fræðasamsamfélaginu sem og nemum fyrir gæði og þjónustu. Auk þess er Háskólinn á Akureyri brautryðjandi í nýtingu fjarnáms hér á landi og hefur verið fyrirmynd fyrir aðra háskóla og opnað margar dyr fyrir fólk víðsvegar af landinu.

Sjá einnig: Karen Birna Þorvaldsdóttir varði doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum

Merkur áfangi

Árið 2009 hófst formlegur undirbúningur á viðurkenningu doktorsnáms við Háskólann á Akureyri og síðan þá hefur það verið eitt af meginmarkmiðum skólans. Undanfarin ár hefur skólinn haft það í stefnu sinni að efla núverandi námsumhverfi, styrkja innviði og auka vægi rannsókna. Nú hefur þessu markmiði verið náð þar sem fyrsta doktorsvörnin fór fram við Háskólann á Akureyri þann 11. október sl. Þar varði Karen Birna Þorvaldsdóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum og má með sanni segja að vörnin hafi ekki aðeins verið merkur áfangi fyrir Karenu Birnu heldur einnig fyrir Háskólann á Akureyri.  Þá berast fréttir af því að  fyrirhugaðar eru í nánustu framtíð enn fleiri doktorsvarnir. Við vitum öll hversu mikilvægt það er fyrir samfélagið allt að hafa háskóla í þessum gæðaflokki. Mennt er máttur sem sannarlega eflir samfélagið og það er óumdeildur ábati af því að öflugir háskólar séu til staðar þvert yfir landið.

Bættari byggð

Háskólinn á Akureyri er án efa ein öflugasta byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í hér á landi og hefur margsinnis sannað gildi sitt. Mikilvægi háskólans fyrir sitt nærumhverfi er óumdeilt og við erum heppin að hafa svo framsækinn háskóla til staðar í samfélaginu okkar. Þegar einstaklingar geta sótt það nám sem þeir vilja, innan síns sveitarfélags eða í nærliggjandi sveitarfélagi, skiptir það sköpum í byggðamálum. Þannig á það að vera og þannig ætlum við að halda því. Háskólinn á Akureyri dregur einnig að sér nýtt fólk hingað norður sem kemur með nýjar hugsanir og ferska vinda. Þannig vaxa og dafna samfélög.

Til hamingju!

Að endingu vil ég óska Karen Birnu Þorvaldsdóttur innilega til hamingju með doktorsvörnina og starfsfólki Háskólans á Akureyri einnig með þennan merka áfanga. Framtíð Háskólans á Akureyri er svo sannarlega björt.

Undirrituð er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó