Hamingja íbúa mest í Skagafirði, Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa mest í Skagafirði, Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði mælist mest á landinu í nýrri íbúakönnun landshlutanna. Íbúar Stranda og Reykhóla ásamt Vestur-Húnavatnssýslu voru óhamingjusamastir í könnuninni. Í könnuninni er afstaða þátttakenda til eigin hamingju og almennrar ánægju með þjónustu sveitarfélagsins þar sem þeir búa dregin saman. Þá mælir könnunin alls 40 búsetuskilyrði eftir 24 landshlutum.

Eyjamenn ánægðastir með þjónustu sveitarfélagsins

Eyjamenn eru ánægðastir með þjónustu sveitarfélagsins, eða rúmlega 80%, en fast á hæla þeirra fylgdu Akureyringar og íbúar Rangárvallasýslu. Lægst var hlutfall ánægðra íbúa í Vogum, rúmlega 50%, á Ströndum og Reykhólum auk Fjarðabyggðar. Höfuðborgarsvæðið lenti í sjötta sæti af 24 svæðum þegar íbúar voru spurðir almennt um ánægju þeirra með þjónustu sveitarfélaga, og kom Reykjavík verst út af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Eyfirðingar ánægðir með búsetuskilyrðin

Eyfirðingar, Skagfirðingar og Akureyringar voru ánægðastir með búsetuskilyrði í sínum sveitarfélögum, en íbúar á Ströndum og Reykhólahreppi, Skaftafellssýslum og Austur-Húnavatnssýslu óánægðastir. Ánægja í Dölum hækkaði hins vegar mest á milli kannana þegar spurt var um búsetuskilyrði en Þingeyjarsýsla, Eyjafjörður, Hérað og Norður-Múlasýsla hækkuðu líka mikið á milli kannana. Mest lækkuðu hins vegar Vestmannaeyjar, Skaftafellssýslur og Austur-Húnavatnssýsla.

Þingeyingar, Akureyringar og Skagamenn ólíklegastir til að flytja þaðan sem þeir búa

Samkvæmt niðurstöðunum eru Þingeyingar, Akureyringar og Skagamenn ólíklegastir til að flytja, en þaðan töldu 9% frekar eða mjög líklegt að þeir myndu flytja á næstu tveimur árum. Líklegastir til að flytja voru íbúar Grindavíkur, Stranda og Reykhóla og S-Vestfjarða en ekki bárust mörg svör frá Grindavík og meirihluti þeirra barst fyrir örlagadaginn 10. nóvember.

Höfuðborgarbúar hafa mest svigrúm til að vinna starf sitt óháð staðsetningu

Samkvæmt könnuninni eru það íbúar höfuðborgarsvæðisins sem hlutfallslega flestir eru í óstaðbundnu starfi eða um helmingur. Akureyringar koma næst á eftir þeim þar sem um 40% er í starfi án staðsetningar. Hlutfallslega fæstir slíkir voru í Vestmannaeyjum eða 20%.

Hér má sjá könnunina í heild sinni.

Borgarnesi, 12. júní 2024

Fréttatilkynning frá Samstarfsvettvangi landshlutasamtakanna og Byggðastofnunar

Nánari upplýsingar veitir Vífill Karlsson, vifill@ssv.is, s. 6959907.

Um íbúakönnun landshlutanna:

Íbúakönnun landshlutanna er samstarfsverkefni allra landshlutasamtaka utan höfuðborgarsvæðisins, ásamt Byggðastofnun. Könnunin hófst haustið 2023 en dróst fram á veturinn 2024. Þátttakendur voru um 11.500.Könnunin byggir á tilviljunarkenndu úrtaki. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, pólsku og ensku. Íbúakönnunin var fyrst framkvæmd á Vesturlandi árið 2004 en síðan á þriggja ára fresti. Könnunin var nú framkvæmd í annað sinn á öllu landinu.

Netsprengja NTC
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó