Góð byrjun KA í Pepsi deildinni hélt áfram í Hafnarfirði í kvöld þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Íslandsmeistara FH. KA sigraði Breiðablik örugglega í fyrsta leik og eru nú með 4. stig eftir fyrstu tvo leikina.
Hallgrímur Mar Bergmann kom KA í 1-0 með glæsilegu marki úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik. FH skoruðu svo tvö mörk og virtust ætla að taka öll stigin áður en Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði metin í blálokin. KA menn hafa litið vel út í fyrstu tveimur leikjunum og ekki hægt að segja annað en að stigið í Kaplakrika hafi verið verðskuldað miðað við gang leiksins.
Fótboltavefurinn fotbolti.net tók viðtal við Hallgrím Mar í leikslok. Hallgrímur var sáttur með stigið. „Við erum með hörku lið og búnir að undirbúa þetta vel. Við komum fullir sjálfstrausts inn í mótið og teljum okkur geta unnið hvaða lið sem er á okkar degi,“ sagði Hallgrímur. Hallgrímur talar einnig um aukaspyrnumark sitt og frábæran stuðning frá stuðningsmönnum KA í viðtalinu sem má sjá hér.
UMMÆLI