Gæludýr.is

Haldið upp á dag íslenskrar tungu í grunnskólum Akureyrar

Tveir nemendur Grímseyjarskóla á degi íslenskrar tungu. Mynd og frétt af akureyri.is

 

Krakkar í grunnskólum Akureyrarbæjar héldu dag íslenskrar tungu hátíðlegan í vikunni.Minning þjóðskáldsins  Jónasar Hallgrímssonar var heiðruð og fundið var upp á ýmsu sem gæti orðið til að auðga og efla íslenskuna.

Í Grímseyjarskóla skráðu nemendur niður allar slettur og slangur sem notuð eru í daglegu máli og fóru síðan í leik þar sem leitað var íslenskra orða sem mætti nota í staðinn. Loks voru bestu tillögurnar límdar upp á vegg.

Naustaskóli var færður í hátíðarbúning á degi íslenskrar tungu og skreyttur með íslenska fánanum. Bæði nemendur og starfsfólk lögðu niður störf klukkan níu, settust niður og lásu í bók í 20 mínútur. Efnt var til ljóðakeppni í tilefni dagsins. Margir fundu ljóðskáldið innra með sér og sendu inn ljóð. Einnig bjuggu nemendur í unglingadeild til myndbönd sem fjölluðu um mikilvægi íslenskunnar. Myndböndin má skoða á Facebooksíðu Naustaskóla.

Í Oddeyrarskóla sátu nemendur og starfsfólk að lestri um alla ganga og í öllum kennslustofum. Teknar voru frá tuttugu mínútur fyrir lesturinn. Fjórði bekkur hefur það fyrir reglu að heimsækja leikskólann í hverfinu á degi íslenskrar tungu og syngja og lesa fyrir leikskólabörnin. Er það liður í æfingum fyrir litlu upplestrarkeppnina. Nemendur í öðrum bekk fengu fræðslu um Jónas Hallgrímsson, hlustuðu á ljóð eftir hann og ræddu saman um ljóðið. Stóra upplestrarkeppnin er sett með formlegum hætti á þessum degi. Safnkennari skólans fór og hitti nemendur sjöunda bekkjar, las fyrir þá ljóð og ræddi um tilgang og framkvæmd upplestrarkeppninnar.

Í Hríseyjarskóla var íbúum eyjarinnar boðið í léttan hádegisverð og nemendur kynntu verkefni sem þeir unnu um heimabyggðina. Þá voru einnig sýnd verkefni sem voru unnin í nýliðinni verkefnaviku sem kennd er við Sudbury Valley skólann í Bandaríkjunum en sú vika miðar að því að nemendur skipuleggi sjálfir námið út frá áhugamálum sínum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó