Háhýsaskipulag á Oddeyri: Hvernig skal svara þegar ekki er spurt?

Háhýsaskipulag á Oddeyri: Hvernig skal svara þegar ekki er spurt?

Í síðustu viku skrifaði ég grein um breytingu á aðalskipulagi Akureyrar sem snýr að hluta Oddeyrarinnar. Ég færði þar rök fyrir að það væri á ábyrgð bæjarstjórnar að komast að því hvaða skoðanir íbúar hafi á málinu, en ég hef síðustu dagana fengið staðfestingu á því að mikill fjöldi íbúa hefur skoðanir á því. 

Sjá einnig: Nýtt kennileiti Akureyrar?

Staðreyndin er því miður sú að bæjaryfirvöld ætla sér ekki í þetta sinn að standa undir þeirri miklu ábyrgð sem skipulagsvaldinu fylgir og munu ekki gera neinar ráðstafanir til þess að eiga samtal við íbúa framyfir hið lögbundna lágmarkssamráð sem felst í því að kynna og auglýsa breytingar og gefa íbúum kost á að gera athugasemdir við þær innan tilskilins tímafrests, sem er í þessu tilviki, til miðvikudagsins 27. maí. 

Því er nú einu sinni þannig farið að flest erum við þokkalega góð í að svara þegar við erum spurð. En mörg eru ekki vön því að láta í sér heyra um skoðanir þegar enginn er spyrjandinn. 

Margt fólk telur að athugasemdir við skipulag þurfi að vera settar fram með mjög formlegum texta og að grundvallarþekking á skipulagsmálum þurfi svo mark sé tekið á því. En það er alls ekki svo. Fullt mark á að vera tekið á athugasemdum sem snúa að smekk eða tilfinningarökum, enda segir í inngangi aðalskipulagsins m.a.: „Með því segjum við hvers konar umhverfi við viljum búa í, hvernig við viljum fara að því að skapa það umhverfi og hverju við þurfum hugsanlega að fórna í staðinn. Aðalskipulag snýst um fólk, fólkið sem býr í bænum og það umhverfi sem við lifum í.“

Sjá einnig: Hverfisráð Oddeyrar enn á móti áformum um byggingar á Oddeyri

Ef lítið berst af athugasemdum er tilhneygingin sú að yfirvöld túlki á þann veg að þögn sé sama og samþykki og í raun gengur hið formlega skipulagsferli út á þá túlkun. Það er því gríðarlega mikilvægt að íbúar láti í sér heyra, sérstaklega ef fólk er ósammála breytingunum. 

Það þurfa því ekki endilega að liggja skipulagsleg rök að baki öllum athugasemdum, þó þau séu vissulega til staðar að margra mati. Sem dæmi má nefna að ég hef heyrt frá fólki sem leggur áherslu á að mikilvægt sé að rannsaka vel hvaða áhrif háhýsi hafa á vinda og veðurfar áður en farið er í slíka uppbyggingu, bæði með hliðsjón af flugumferð en einnig áhrif á næsta nágrenni á jörðu niðri. Viðraðar hafa verið áhyggjur af hækkandi sjávarmáli og hvort bygging stórhýsis svo nærri sjó sé skynsamleg. Enn aðrir hafa velt fyrir sér hvort bygging svo margra íbúða miðsvæðis muni tefja fyrirhugaða uppbyggingu í miðbænum. Eðlilega hafa íbúar í næsta nágrenni áhyggjur af skuggamyndun og útsýnismissi og svo má lengi áfram telja. 

Staðreyndin er sú að athugasemdir á netinu, í eldhúsum, kaffistofum og öðrum spjallsvæðum lífsins hafa engin áhrif inn í skipulagsferlið og því er gríðarlega mikilvægt að þau sem skoðanir hafa eða efasemdir um gæði breytinganna komi þeim á framfæri til skipulagsyfirvalda. Auðvelt er að senda tölvupóst á skipulagssvid@akureyri.is eða rita þær á pappír sem koma þarf til Skipulagssviðs Akureyrarbæjar, Geislagötu 9. Nauðsynlegt er að athugasemdunum fylgi nafn, kennitala og heimilisfang sendanda.

Fyrir þau sem áhuga hafa á mismuni kynningarefnis og raunveruleika vil ég benda á sænska vefsíðu þar sem áhugafólk um arkítektúr hefur sett fram samanburðarmyndir http://www.arkitekturupproret.se/2018/06/06/fake-views-visionsbilder-vs-verklighet/.

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó