Ársreikningur Samherja 2018 var kynntur á dögunum þar sem fram kom að tekjur Samherja námu um 43 milljörðum króna og hagnaðurinn af rekstri nam 8,7 milljörðum. Ársreikningur Samherja er í evrum en upphæðir eru umreiknaðar í þessari umfjöllun í íslenskar krónur.
Samherji er áfram í hópi stærstu skattgreiðenda landsins og greiddu Samherji og starfsmenn um 4,7 milljarða til hins opinbera á Íslandi árið 2018. Árið 2017 skilaði Samherji 9,8 milljarða króna hagnaði. Lægri hagnaður í ár er aðallega tilkominn vegna mikils söluhagnaðar árið 2017 upp á 4,5 milljarða króna samanborið við 140 milljón krónur á síðasta ári. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði jókst hins vegar um einn milljarð króna milli ára og nam 7,7 milljörðum króna sem jafngildir 18% af veltu.
Ný fiskvinnsla á Dalvík og nýtt uppsjávarskip væntanlegt á næsta ári
„Búið er að einfalda samstæðu Samherja og er þetta fyrsta árið þar sem Samherji hf. heldur einungis utan um starfsemi okkar á Íslandi og í Færeyjum. Við höfum í gegnum árin gert miklar breytingar í rekstrinum, meðal annars til að takast á við breytingar á neysluvenjum neytenda og auknum kröfum þeirra,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja þegar ársuppgjör fyrir árið 2018 var kynnt að loknum aðalfundi.
„Við höfum haldið áfram uppbyggingu á innviðum Samherja. Nýlega var sjósettur nýr togari Útgerðarfélags Akureyringa sem fær nafnið Harðbakur. Framkvæmdir við nýja fiskvinnslu á Dalvík halda áfram af fullum krafti og stefnt er á að geta hafið vinnslu í nýju og glæsilegu hátæknihúsi á fyrsta ársfjórðungi 2020. Þá á að afhenda Vilhelm Þorsteinsson, nýtt uppsjávarskip okkar, um mitt sumar 2020. Það eru spennandi tímar framundan“ segir Þorsteinn Már ennfremur í tilkynningunni.
Ársreikning Samherja hf. má nálgast hjá ársreikningaskrá á næstu dögum en hér á eftir eru lykiltölur úr rekstrinum árið 2018. Aðalfundur ákvað að 7,7% af hagnaði verði greitt í arð til hluthafa.
UMMÆLI