Á aðalfundi KEA sem fram fór í gærkvöldi kom fram að 787 milljóna króna hagnaður varð af rekstri félagsins á síðasta ári. Hreinar fjárfestingatekjur voru 1.057 milljónir króna og hækkuðu um 290 mkr. á milli ára. Eigið fé var rúmir 9,5 milljarðar og heildareignir námu rúmum 9,8 milljarði króna. Eiginfjárhlutfall var rúmlega 97%.
„Á árinu voru seldir eignarhlutir í Þekkingu og Eignarhaldsfélaginu Bjarma en það félag hélt á 5% eignarhlut í Samkaupum. Hlutur félagsins í Stefnu var aukinn í 25%. KEA metur eignir sínar á gangvirði en það mat á að endurspegla hverju sinni líklegt verðmæti eignanna félagsins. Heilt yfir gekk félögum sem KEA á eignarhluti í ágætlega þrátt fyrir nokkurn breytileika í þróun afkomu einstakra verkefna. Áfram er unnið að því að endurfjárfesta fyrir það fé sem hefur fengist í eignasölum síðustu missera en á aðalfundinum voru kynntar áherslur félagsins í að auka verulega vægi fasteignatengdra verkefna í eignasafni sínu. Jafnframt verður unnið í því að einfalda eignasafnið og fækka en um leið stækka þau verkefni sem félagið sýslar með hverju sinni. Eiríkur Haukur Hauksson og Snjólaug Svala Grétarsdóttir voru endurkjörin í stjórn félagsins,“ segir í tilkynningu KEA.
UMMÆLI