Handboltamaðurinn og Akureyringurinn Hafþór Már Vignisson mun í sumar ganga til liðs við þýska B-deildarliðið Empor Rostock. Hafþór sem er uppalinn hjá Þór á Akureyri hefur spilað með Stjörnunni í Olís-deildinni undanfarin ár.
„Ég hlakka til þess að fara til Rostock í sumar og spila með liðinu. Ég tel að handboltinn þar henti mínum leikstíl vel. Ég vonast til þess að aðlagast liðinu sem fyrst,“ segir Hafþór.
Hafþór Már, sem er örvhent skytta og leikstjórnandi, skrifaði undir tveggja ára samning við Empor og verður því í Þýskalandi til sumarsins 2024.
Till Wiechers, þjálfari Rostock, er ánægður með að fá Hafþór. „Hafþór var draumaleikmaðurinn okkar í þessa stöðu, hann passar fullkomlega inn í okkar kerfi og sem manneskja mun hann aðlagast liðinu okkar fljótt,“ segir hann á vef félagsins.
UMMÆLI