Hafa hjálpað yfir 160 einstaklingum með geðrænan vanda

Hafa hjálpað yfir 160 einstaklingum með geðrænan vanda

Grófin – Geðverndarmiðstöð hóf starfsemi sína á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn þann 10. október 2013. Grófin var stofnuð í þéttu samráði við grasrótina, þ.e. fólk sem glímir við geðraskanir og í samstarfi við Geðverndarfélag Akureyrar og nágrennis. Á þessum fimm árum hefur Grófin verið batavettvangur fyrir 160 einstaklinga sem glíma við geðrænan vanda. Grófin er miðstöð fyrir einstaklinga sem vilja stuðla að bættri geðheilsu fyrir sjálfa sig eða aðra nána sér og stendur m.a. fyrir alls konar fræðsluerindum og hópastarfi fyrir fólk og aðstandendur þess, forvörnum og aukinni vitundarvakningu í samfélaginu ásamt því að skapa vettvang fyrir alla þá sem vilja vinna að geðverndarmálum á jafningjagrunni. Einnig starfar Grófin sem ráðgjafi fyrir fólk í samskiptum við velferðarkerfið.

Missa fjármögnun frá Geðverndarfélaginu
Alltof mikið er um það að fjármagn vanti í heilbrigðiskerfið og þá sérstaklega geðheilbrigðiskerfið. Grófin er eitt af örfáum úrræðum fyrir þá sem berjast við geðsjúkdóma á Akureyri og nú stefnir í að hún missi fjármagn frá Geðverndarfélagi Akureyrar. „Aðalfjármögnun Grófarinnar hefur í nokkur ár komið með þjónustusamningi við Vinnumálastofnun og við erum bjartsýn á að sá samningur verði endurnýjaður aftur um áramótin. Hins vegar hefur þessi samningur ekki dugað til að fjármagna Grófina og þar hefur Geðverndarfélagið komið með það fjármagn sem á vantar. Því miður er sá stuðningur að renna sitt skeið þar sem sjóðir Geðverndarfélagsins eru þverrandi. Nú þegar er vinna hafin við að afla nýs fjár þess í stað, til að starfið geti haldið ótrautt áfram,“ segir Hrafn Gunnar Hreiðarsson, varaformaður stjórnar Grófarinnar.

Rjúfa félagslega einangrun fólks og hjálpa þeim í átt að bata
Staðir eins og Grófin skipta einstaklinga með geðrænan vanda gríðarlega miklu máli. Úrræði eins og þetta leiðir af sér betri almenna líðan, betri félagsfærni, færri læknaheimsóknir og minni lyfjanotkun hjá einstaklingum. Í kjölfarið leiðir það til minna álags á heilbrigðiskerfið.
„Fyrir marga meðlimi snýst þetta einfaldlega um að hafa tilgang til að vakna á morgnana. Í stað þess að sitja heima á daginn og upplifa félagslega einangrun hefur fólk stað til að mæta á. Þetta hefur líka áhrif á aðstandendur þessara einstaklinga sem þurfa ekki að hafa eins miklar áhyggjur og eyða jafn miklum tíma í að vera aðstandandi. Svona starfsemi leiðir í heild sinni til minna álags á heilbrigðiskerfið og kostar lítið sem ekkert í samhengi við útgjöld í geðheilbrigðiskerfinu,“ segir Hrafn Gunnar.

 

SPURT OG SVARAÐ: 

Nafn félags: Grófin – geðverndarmiðstöð

Hvenær var félagið stofnað? 10. október 2013, á alþjóða geðheilbrigðisdeginum

Hver er fjöldi félagsmanna? Í kringum 160 manns

Hvert er hlutverk eða starfsemi félagsins? Hlutverk Grófarinnar er að vera geðverndarmiðstöð fyrir Akureyri og nærliggjandi bæjarfélög, þ.e.a.s. miðstöð fyrir þá sem vilja stuðla að bættri geðheilsu síns sjálfs eða annarra á svæðinu á einn eða annan hátt – ásamt því að leiðbeina fólki í samskiptum við velferðarkerfið með hópastarfi og fræðslu.

Hver er formaður félagsins og hvað eru margir í stjórn? Stjórnarformaður er Friðrik Einarsson og forstöðumaður Grófarinnar er Valdís Eyja Pálsdóttir. Í stjórninni sitja 5 aðalmenn og 4 varamenn.

Takið þið við nýjum félagsmönnum/hvernig er hægt er gerast félagsmeðlimur? Við tökum ávalt við nýjum meðlimum hvenær sem er og það eru engar kröfur gerðar til þeirra sem langar til að taka þátt í starfinu aðrar en að verða orðin\n sjálfráða og að sýna öðrum meðlimum virðingu. Í Grófinni er ekki í boði að vera undir áhrifum vímuefna.

Kostar eitthvað að taka þátt í starfseminni? Nei, Grófin er opin öllum og er gjaldfrjálst úrræði.

Hver eru ykkar helstu verkefni og/eða viðburðir á starfsárinu? Grófin er opin milli 10-16 alla virka daga en formleg starfsemi felst aðallega í reglubundnu hópastarfi með mismunandi batatengdum áherslum. Hægt er að kynna sér starfsemina á heimasíðu og facebook-síðu Grófarinnar.

Oft eru einhver tímabundin verkefni í gangi eins og t.d.  núvitundarnámskeið, Tai Chi leikfimi eða menningarklúbbur. Í Grófinni er einnig starfræktur hópur sem kallar sig Unghugar. Hópurinn er sérstaklega ætlaður yngri einstaklingum, 18 ára og eldri, sem glíma við geðrænar áskoranir eða félagslega einangrun.

Hvað hefur félagið áorkað frá stofnun þess? Grófin hefur verið batavettvangur fyrir u.þ.b. 160 einstaklinga sem glímt hafa við geðrænan vanda. Grófin heldur úti öflugu geðfræðsluteymi sem hefur haldið fjölmörg fræðsluerindi um geðraskanir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó