NTC

Hættan á Hörgárbraut

Hættan á Hörgárbraut

Kristófer Alex Guðmundsson skrifar:

Tvö börn á aldrinum sex og sjö ára hafa orðið fyrir bíl á Hörgárbraut á Akureyri með nokkra mánaða millibili. Ég vona að þau nái fullum bata og sendi þeim og fjölskyldum þeirra mínar fyllstu batakveðjur. Öll börn eiga rétt á því að vera börn og foreldrar eiga ekki að hafa áhyggjur af því hvort barnið sitt komi heim þegar það fer út að leika.

Blessunarlega er til einföld, ódýr og hraðvirk lausn sem mun stórauka öryggi barnanna okkar. Lausnin er ekki fólgin í göngubrúm, undirgöngum, ljósastýringu, flóðljósum eða fleiri skiltum eins og hefur komið upp í umræðunni. Hún snýst öllu heldur um að lækka hraða bílanna, fækka akreinum og að fjölga hraðahindrunum. Fyrir suma kynni þetta eflaust að hljóma eins og árás, enda erum við Akureyringar vanir því að ferðast um bæinn á bíl. Að leggja aukið vægi í öryggi gangandi vegfarenda þýðir þó ekki að verið sé að banna bíla, heldur að við sem bær setjum líf barna í hærri forgang í skiptum fyrir nokkrar sekúndur í ferðatíma.

Hættan á Hörgárbraut á sér langan aðdraganda. Árið 2017 var kona að ganga með hundinn sinn þegar hún varð fyrir bíl með þeim afleiðingum að hún fótbrotnaði og hundurinn hennar dó. Nokkrum árum áður, árið 2014 varaði Vegagerðin við tvöföldum götum á borð við Hörgárbraut, nefndabókanir frá árinu 2011 safna ryki hjá bænum og árið 1986 varð banaslys þegar maður varð fyrir bíl við hringtorgið.

Vandamálið snýst ekki um hvort börn mættu passa sig betur, heldur að bílar keyri of hratt og bregðast ekki við börnum í tæka tíð. Ef við beinum gangandi vegfarendum annað, í brýr eða undirgöng hvetjum við bílstjóra til að keyra hraðar. Þannig leysum við ekki vandann, heldur gerum hann verri. Hvað gerir ökumaður á fjögurra akreina hraðbraut, aðgreindur frá mótumferð, í fullri trú um að allir gangandi vegfarendur fara í undirgöngin eða brúnna? Hann gefur einfaldlega í. Hvað gerist svo þegar annað barn birtist?

Höfundur er Akureyringur sem á átta, níu og ellefu ára systkini í hverfinu.

Sambíó

UMMÆLI