Air Iceland Connect hefur hætt við að hefja áætlunarflug milli Keflavíkur og Akureyrar á ný í haust. Þetta er annað stóra áfallið fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi en ástæðan er fækkun farþega í innanlandsflugi. Þetta sagði Árni Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Air Iceland Connect, í samtali við mbl.is.
„Við flugum milli Akureyrar og Keflavíkur fram í maí og höfðum í hyggju að hefja flug aftur í október en höfum tekið ákvörðun um að gera það ekki. Það er í rauninni bara fækkun farþega í innanlandsflugi sem gerir það að verkum og auðvitað fækkun erlendra ferðamanna. Þetta hefur allt áhrif á okkur,“ útskýrir Árni í samtali við mbl.is.
Eins og greint var frá á fimmtudaginn lýsti breska ferðaskrifstofan Super Break yfir gjaldþroti sínu en ferðaskrifstofan hafði ætlað að bjóða upp á beinar flugferðir milli Bretlands og Akureyrar í haust.
UMMÆLI