Hængsmót, Íslandsmót og afhending á nýjum bíl

Hængsmót, Íslandsmót og afhending á nýjum bíl

Lionsklúbburinn Hængur heldur sitt árlega Hængsmót dagana 3. og 4. maí. Mótið fer nú fram í 41. skipti en það hefur verið árlegt í starfsemi klúbbsins. Á mótinu í ár er keppt í Boccia og eru keppendur hátt í 200. Á laugardagskvöldinu er haldið veglegt lokahóf þar sem borinn er fram veislumatur og góðir skemmtikraftar halda uppi stuði fram eftir kvöldi.

Leikið verður í Höllinni föstudag og laugardag og eru áhorfendur velkomnir. Klúbburinn nýtur mikillar velvildar í samfélaginu og styrkja fjölmörg fyrirtæki mótshaldið auk þess sem Akureyrarbær lánar Íþróttahöllina til mótsins án endurgjalds.

Við setningu mótsins, klukkan 9 á föstudagsmorgun, mun klúbburinn afhenda nýja bifreið til Skammtímavistunar fatlaðra á Akureyri sem leysir af hólmi eldri bifreið sem Lionshreyfingin gaf árið 2006. Bifreiðin er af gerðinni Mercedes Benz eVito og er rafknúin með hjólastólalyftu. Það er von Lionsmanna að hún nýtist vel og auðgi líf þeirra sem njóta.

Lionsklúbburinn Hængur er félagsskapur um 40 karla sem stendur fyrir öflugu starfi. Klúbburinn fundar tvisvar í mánuði frá september og fram í maí ár hvert. Hængur er hluti af neti Lionsklúbba sem starfa í um 200 löndum um allan heim.

Í þetta sinn verður einnig keyrt Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í sveitakeppni í boccia ásamt Hængsmóti. Tilefnið er að íþróttafélagið Akur sem er aðili að íþróttasambandi fatlaðra er 50 ára á árinu og er þessi íþróttaviðburður hluti af afmælistengdum verkefnum sem félagið hyggst standa að á árinu.

Ár hvert stendur Íþróttasamband fatlaðra að sveitakeppni í boccia og ár hvert stendur Lionsklúbburinn Hængur að Hængsmóti á Akureyri. Í tilefni af 50 ára afmæli Akurs á árinu var ákveðið að halda Íslandsmót ÍF í sveitakeppni og Hængsmót í boccia saman helgina 3.-4. maí næstkomandi á Akureyri.

Íslandsmót ÍF í sveitakeppni í boccia er þá leikið föstudaginn 3. maí en Hængsmótið leikið laugardaginn 4. maí.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó