Í haust hefur Kaffið fengið að kynnast mannlífinu í Háskólanum á Akureyri. Þessa vikuna er komið að henni Sæunni Gísladóttur, sérfræðingi hjá Rannsóknarmiðstöð HA.
- Hvert er hlutverk þitt í HA?
Ég er sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og er einnig í hlutastarfi sem starfskraftur Jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri. Hjá RHA vinn ég að fjölbreyttum rannsóknum, einkum á sviði byggðaþróunar og jafnréttismála. Ég lauk nýverið stórri rannsókn um óstaðbundin störf og reynsluna af þeim en er um þessar mundir að leiða samnorræna rannsókn,styrkta af Norrænu ráðherranefndinni, um hvernig úkraínskum flóttakonum hefur farnast á norrænum vinnumörkuðum. Einnig er ég að vinna að rannsókn um samfélagsleg áhrif HA. Við vorum líka að ljúka við nýja jafnréttisáætlun fyrir HA til ársins 2028 en það var mjög skemmtilegt verkefni sem öllu starfsfólki og nemendum bauðst að koma að. Ég er gríðarlega þakklát fyrir hvað verkefni mín hjá HA hafa verið krefjandi og fjölbreytt síðustu árin og hef ég líkt og fleira starfsfólk HA notið þess að ferðast á vegum vinnunnar, m.a. til Slóvakíu, New York, Kýpur og Noregs og eflt tengslanet okkar við evrópska háskóla og rannsóknastofnanir.
- Hvenær og hvernig hófst sagan þín í HA?
Ég hóf störf hjá RHA og HA 1. september 2022. Ég er að sunnan og hef búið víða erlendis og á höfuðborgarsvæðinu en ákvað að flytja norður á Siglufjörð vorið 2022 án tengingar þangað. Ég var í fæðingarorlofi og langaði gjarnan að fá vinnu á svæðinu til að tengjast betur inn í samfélagið á Norðurlandi eystra og sá þá afar spennandi auglýsingu frá RHA. Ég fékk starfið og í kjölfarið bauðst mér einnig staðan við jafnréttisráð en ég hef brennandi áhuga á jafnréttismálum, þýddi m.a. bókina Ósýnilegar konur, svo þetta var alveg fullkomin blanda fyrir mig. Ég er með vinnuaðstöðu bæði á Siglufirði og Akureyri, en RHA flutti nýverið í glæsilega skrifstofu við Hafnarstræti 95.
- Hvernig vinnustaður er HA?
HA er einn besti vinnustaður sem ég hef upplifað. Það er alveg gríðarlega öflugt fólk sem þar vinnur, framúrskarandi á sínu sviði með áhugaverða reynslu innanlands og utan. Ég fann fyrir miklum stuðningi þegar ég var að byrja og þurfti leiðsögn bæði í byggðarannsóknum og í jafnréttismálum, það hafa allir verið mjög hjálpsamir og upplifi ég mikla velvild meðal starfsfólks. Ég held það sjáist best á því hve vel fólki líkar við vinnuna í HA að ef því langar í nýjar áskoranir skiptir það gjarnan um starf innan HA, frekar en að skipta um vinnustað.
- Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?
Háskólalífið er mjög öflugt, HA er ólíkur háskólunum þar sem ég lærði að því leyti að það er mikið fjarnám og sveigjanlegt nám, hins vegar er unnið markvisst að því að efla gott námssamfélag og nánast alltaf einhver lota í gangi og því nóg af nemendum á göngunum eða í matsalnum. Mér finnst gaman að sjá hvað HA hefur stutt við eflingu menntunarstigs meðal íbúa dreifðari byggða og veit að við eigum HA mikið að þakka varðandi fjölgun kennara, hjúkrunarfræðinga og iðjuþjálfa um allt land svo eitthvað sé nefnt. Stúdentafélagið er mjög öflugt og hefur notið góðs af frábærum forsetum undanfarin ár, meðal annars núverandi forseta Silju Rún Friðriksdóttur og fyrrum forseta Sólveigu Birnu Elísabetardóttur sem ég hef fengið að kynnast í gegnum setu þeirra í jafnréttisráði. Ég upplifi að stjórnendur í HA séu sífellt að hugsa um hvernig megi auka námsframboð til að mæta nýjum áskorunum atvinnulífsins og fagna nýju samstarfi með Drift á sviði nýsköpunar.
- Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hafja nám við háskólann?
Það er erfitt að gefa ráð þar sem nemendur eru eins misjafnir og þeir eru margir en til þeirra sem eru ungir og að takast á við nám á háskólastigi í fyrsta sinn myndi ég mæla með góðu skipulagi, vera með yfirsýn yfir allar lotur, verkefnaskil og prófadagsetningar frá byrjun. Þá er auðveldara að skipuleggja sig, en svo fannst mér alltaf gott í mínu námi að reyna að nálgast það eins og vinnu (ef fólk er ekki í fullri vinnu með) og sinna því á dagvinnutíma og gefa sér tíma í sjálfsrækt, félagslíf og hlutastarf um kvöld og helgar.
- Hvað gerir háskólann sérstakan að þínu mati?
Það tala margir nemendur um hvað hann sé lítill og persónulegur, það eru stuttar boðleiðir, jafnvel ef þarf að tala við rektor! Ég held að það geri háskólann sérstakan og auðvitað stórkostlega umhverfið á Akureyri. Það er bæði mjög gaman fyrir námsfólk að búa á Akureyri og koma þangað í lotur.
- Hver er uppáhalds staðurinn þinn í HA, af hverju?
Matsalurinn, mér finnst alltaf gaman að hitta fólk úr öðrum deildum og eiga góðar umræður um menningu, stjórnmál og listir yfir kaffibolla að máltíðinni lokinni. Maturinn er svo góður líka, en um daginn var stórkostlegur hátíðarmatur, kalkúnn og með því og svo Tobleronebúðingur í desert, það hefði þurft að bjóða fólki að leggja sig eftir þetta!
- Þegar þú varst yngri, hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Þegar ég var á yngstu stigum grunnskólans langaði mig að verða mjög margt, dýralæknir og fornleifafræðingur svo eitthvað sé nefnt. Ég fékk áhuga á að verða blaðamaður upp úr svona tíu ára aldrinum og fékk að uppfylla þann draum þegar ég réði mig eftir grunnnám á fréttastofu 365. Ég vann þar í tvö ár og fékk að upplifa alla flóruna, dagblaðaskrif, vefskrif, útvarp, sjónvarp, að skrifa fyrir Glamour tímaritið (sem litla Sæunn hefði misst sig yfir) og lærði alveg heilan helling og eignaðist frábæra samstarfsfélaga sem ég er enn í sambandi við í dag.
- Ef þú værir að velja þér nám við HA í dag, hvaða nám myndir þú velja og hvers vegna?
Ég myndi velja tvennt, annars vegar félagsfræðina, ég hef kynnst henni í gegnum rannsóknir mínar hjá RHA en væri til í að kafa mér dýpri í hana og taka áfanga hjá Berglindi Hólm Ragnarsdóttur, fyrrum formanni jafnréttisráðs, sem ég hef unnið mikið með en aldrei heyrt fyrirlestur hjá! Svo væri það sjávarútvegsfræðin af þeirri einföldu ástæðu að ég veit ekkert um hana og væri svo til í að vita meira um þessa mikilvægu stoð í íslensku atvinnulífi.
- Hvernig er kaffið í HA?
Það er bara skítheiðarlegt!
UMMÆLI