Guðbjörg Ringsted opnar málverkasýningu í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins á Akureyri þann 23.júlí kl.14. Þar sýnir hún ný málverk unnin á þessu og síðastliðnu ári.
Guðbjörg er fædd árið 1957 á Akureyri og er búsett þar. Eftir útskrift úr MA 1977 hélt hún til náms í Reykjavík í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, þaðan sem hún útskrifaðist úr grafíkdeild árið 1982. Fyrst um sinn vann Guðbjörg aðallega í grafík en sneri sér svo að málverkinu árið 2007. Viðfangsefni Guðbjargar hafa verið blóm sem sótt eru í blómamunstur af íslenskum kvenþjóðbúningum. Blómin fá þó visst frelsi í meðförum hennar og eignast sitt eigið líf.
Árið 2012 var Guðbjörg valin bæjarlistamaður Akureyar og árið 2011 fékk hún það verkefni að hanna jólafrímerki og jólaprýði Póstsins – og aftur jólaprýði árið 2017.
Guðbjörg hefur haldið yfir 30 einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hér heima og erlendis. Sjá:www.gudbjorgringsted.is
Sýning Guðbjargar í Mjólkurbúðinni stendur til mánudagsins 1.ágúst og er opin frá kl. 14 – 17.
UMMÆLI