Grunur leikur á um að þremur einstaklingum hafi verið byrluð ólyfjan á skemmtistað á Akureyri í nótt. Þetta kemur fram á mbl.is.
Í einu tilvikinu var sjúkrabíll kallaður til á skemmtistaðinn þar sem kona lá nánast meðvitundarlaus þar fyrir utan. Í hinum tveimur tilvikunum, þar sem um karl og konu var að ræða, fluttu vinir þeirra þau á slysadeild og létu lögregluna vita.
Árni Páll Jóhannson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir að málið sé komið í rannsókn hjá lögreglunni en enginn liggur undir grun sem stendur.
Árni segir að einnig hafi leikið grunur á byrlun ólyfjanar á Akureyri um síðustu helgi og fór viðkomandi á sjúkrahús. Ekkert hefur komið út úr þeirri rannsókn. Hann segir lögregluna eiga eftir að athuga með eftirlitsmyndavélar á skemmtistaðnum í nótt og ræða við vitni.
UMMÆLI