NTC

Grunnskóli Fjallabyggðar sigraði FiðringMynd: Daníel Starrason

Grunnskóli Fjallabyggðar sigraði Fiðring

Fiðringur, hæfileikakeppni grunnskóla á Norðurlandi fór fram í gær í Hofi á Akureyri. Þetta er í annað sinn sem Fiðringur á Norðurlandi er haldinn. Í fyrra tóku 8 skólar þátt og þá komust öll atriðin fyrir á einu kvöldi. Í ár tóku 12 skólar þátt.  Því voru haldnar tvær undankeppnir; ein í Tjarnarborg í Ólafsfirði og önnur í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit og svo fór  úrslitakvöldið í HOFI fram í gærkvöldi (25. apríl) þar sem 4 skólar frá hvoru kvöldi kepptu um farandverðalunagrip Fiðrings.

Alla vorönn hafa liðin samið og æft og útfært sín atriði og í gærkvöldi var spennan orðin óbærileg. Það er ekkert lítill skóli að fá að koma sinni eigin hugmynd upp á svið – bara það að velja eina hugmynd getur verið mjög snúið.  Þau gera allt sjálf með dyggum stuðningi leiðbeinenda sinna sem eru til halds og traust og miðla málum og hvetja þau áfram.  Þau sjá sjálf um tæknina, búninga, förðun, hanna dansa, skrifa texta og æfa og æfa og æfa.  

Það var rafmögnuð stemning í Hofi, stappfullt hús af áhorfendum og ríflega 120 keppendur sem blómstruðu á sviðinu í dansi söng og leik.  Kynnar kvöldsins voru Vandræðaskáldin Villi og Sessí og ungstirnið Gugusar brilleraði í dómarahléinu. Dómarar kvöldsins voru Marta Nordal leikhússtjóri, Jenný Lára Arnórsdóttir skólastjóri Leiklistarskóla LA  og Freyja Dögg fulltrúi frá Ungmennaráði Akureyrar. Þær fengu það erfiða hlutskipti að raða í þrjú efstu sætin.

Sigurvegarinn í ár er Grunnskóli Fjallabyggðar sem flutti atriðið Seinna er of seint og fjallar um það hvernig við erum stela okkar eigin framtíð með því að spilla jörðinni. Í öðru sæti varð Oddeyrarskóli með atriðið Hjálp! Þar er umfjöllunarefnið hinir ýmsu erfiðleikar sem unglingar glíma við dags daglega í samfélaginu. Í þriðja sæti varð svo Þelamerkurskóli með atriðið Bréfið sem er e.k.  kveðjubréf stúlku eða stúlkna sem eru að bugast undan álaginu sem fylgir því að vera stelpa. Það var magnað að verða vitni að því hvað unglingarnir hafa margt að segja og hvað þau geta sagt það á frjóan og skapandi hátt!  Áfram menning og listir!

Menningarfélag Akureyar, SSNE, Barnamenningarhátíð, Samfélagssjóður Landsbankans, Þátttökuskólarnir allir og SBA gerðu Fiðring að veruleika með stuðningi sínum. 

VG

UMMÆLI

Sambíó