NTC

Grundargralið – Hver var Akne Hustergaard?

Grundargralið – Hver var Akne Hustergaard?

Valgerður Árnadóttir Briem var fædd árið 1779. Valgerður var eiginkona Gunnlaugs Briem (1773-1834) sýslumanns í Kjarna og á Grund. Til er ljósmynd af Valgerði sem margir þekkja. Myndin er söguleg fyrir þær sakir að barnabarn þeirra hjóna, hinn kunni bankastjóri, þingmaður og kaupstjóri Gránufélagsins, Tryggvi Gunnarsson er álitinn hafa tekið myndina af ömmu sinni. Tryggvi lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn veturinn 1863–1864.

Það sem gerir myndina merkilegri er hversu langt síðan Valgerður fæddist. Þó myndin sé ekki á meðal elstu ljósmynda af Íslendingi, hefur hún hingað til verið talin tekin af þeim Íslendingi sem fæddist fyrst allra þeirra sem ljósmynd hefur verið tekin af á Íslandi. Valgerður lést árið 1872 svo ef rétt reynist er myndin tekin fyrir þann tíma, eðli málsins samkvæmt. En er konan á myndinni mögulega einhver önnur en Valgerður Briem?

Ekki er úr miklu að moða þegar leitað er upplýsinga um ljósmyndina á erlendum vefsíðum. Þó er eitt sammerkt með sumum þeirra sem vekur athygli en það er nafn konunnar á myndinni – Akne Hustergaard(?) Er það kannski til marks um að konan sem um ræðir sé önnur en sýslumannsfrúin á Grund? Þá vekur upp spurningar að  ljósmyndin er til á Nationalmuseet í Kaupmannahöfn (https://samlinger.natmus.dk/dmr/asset/160020) þar sem hún er sögð úr fórum Daniel Bruun (1856-1931). Bruun var liðsforingi í danska hernum og fornleifafræðingur. Hann kom margoft til Íslands um aldamótin 1900 til að rannsaka kuml. Þó myndin sé eignuð Daniel Bruun í Þjóðminjasafninu í Danmörku, þarf það ekki að þýða að hann hafi tekið myndina. En ef svo, þá er útilokað að myndin sé af Valgerði Briem þar sem Bruun kom í fyrsta skipti til Íslands árið 1896.

Grenndargralið rekur sögu Gunnlaugs Briem, Valgerðar konu hans, afkomenda og samferðamanna í hlaðvarpsþáttunum Leitin að Grundargralinu.

Heimild: Grenndargralið

VG

UMMÆLI

Sambíó