Framsókn

Grunaður um að hafa ekki komið konunni til hjálpar

Grunaður um að hafa ekki komið konunni til hjálpar

Ung börn hennar voru á heimilinu.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum sem er í haldi lögreglunnar vegna andláts ungrar konu á Akureyri um helgina kemur fram að maðurinn sé grunaður um að hafa komið konunni ekki til hjálpar en maðurinn er talinn hafa verið á vettvangi þegar konan lést. Faðir konunar kom að henni látinni á sunnudaginn en ung börn hennar voru á heimilinu.

Í úrskurðinum kemur fram að rannsókn málsins sé mjög skammt á veg kominn en sérfræðingar frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu komu norður í gær og aðstoðuðu við vettvangsrannsókn. Lögreglan tók skýrslu af manninum í gær, en ekki var hægt að taka skýrslu af honum á sunnudaginn þar sem hann var undir áhrifum lyfja.

Við handtöku fundust munir sem tilheyrðu hinni látnu í vörslu mannsins og í dag fór fram húsleit á dvalarstað mannsins með hans samþykki. Þar var lagt hald á tölvubúnað og síma sem tekinn var til rannsóknar. Eftir á að rannsaka símasamskipti konunnar sem hugsanlega geti varpað ljósi á það hvenær hún hafi látist og einnig hvort fleiri hafi verið í íbúðinni.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn og hin látna hafi þekkst og höfðu verið í samskiptum kvöldið áður.

Krufning hefur farið fram og er niðurstöðu hennar nú beðið.

Sambíó

UMMÆLI