Grímseyjarkirkja brann till grunna í nótt. Engum verðmætum var hægt að bjarga eftir eldsvoðann sem þar kom upp fyrir miðnætti. Þetta kemur fram á mbl.is sem greindi fyrst frá eldsvoðanum.
Ekki er vitað um upptök eldsins og er lögreglu ekki kunnugt um að neinn hafi verið staddur í kirkjunni þegar útkall barst.
Kolbrún Björg Jónsdóttir, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi eystra, segir í samtali við mbl.is að við taki rannsókn þar sem upptök eldsins verði rannsökuð. „Þetta er auðvitað timburhús og það er vöktun á húsinu. Þeir áttu aldrei möguleika á að bjarga þessu. Það versta er afstaðið og svo kemur að rannsókn þar sem málin verða rannsökuð frekar,“ segir Kolbrún.
„Þetta er náttúrulega ofboðslega mikið áfall, 160 ára kirkja sem er friðuð. Eðlilega er þetta mjög mikið áfall fyrir eyjarskeggja,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, í samtali við mbl.is.
Grímseyjarkirkja var byggð árið 1867 rekaviði. Hún var færð um lengd sína vegna eldhættu árið 1932. Gagngerar endurbætur voru gerðar á henni árið 1956 og var hún þá endurvígð. Kirkjan var friðuð 1. janúar árið 1990 samkvæmt aldursákvæði þjóðminjalaga.
UMMÆLI