KA-menn heimsóttu Stjörnuna í Garðabæ í kvöld í toppslag Pepsi-deildar karla í fótbolta. Úr varð hörkuleikur sem endaði með afar naumum sigri heimamanna.
Guðjón Baldvinsson kom Stjörnunni yfir á 22.mínútu þegar hann skallaði boltann framhjá Srdjan Rajkovic. KA-menn náðu að jafna fyrir leikhlé þegar Ásgeir Sigurgeirsson stýrði skottilraun Emil Lyng í netið.
Staðan hélst jöfn allt þar til á síðustu mínútu uppbótartíma þegar Eyjólfur Héðinsson skoraði stórglæsilegt mark eftir vandræðagang í vörn KA en KA-menn voru afar ósáttir við dómgæsluna í aðdraganda marksins og vildu fá aukaspyrnu nokkrum sekúndum áður en sigurmarkið kom.
Fyrsta tap nýliða KA í Pepsi-deildinni staðreynd og hefur liðið sjö stig eftir fjóra leiki. Næsti leikur KA er næstkomandi laugardag þegar Víkingur Reykjavík heimsækir Akureyrarvöll.
Stjarnan 2 – 1 KA
1-0 Guðjón Baldvinsson (’22)
1-1 Ásgeir Sigurgeirsson (’42)
2-1 Eyjólfur Héðinsson (’90)
UMMÆLI