Grafíklistaverk úr safni Hildar og Guðmundar Ármanns 

Grafíklistaverk úr safni Hildar og Guðmundar Ármanns 

Föstudaginn 13. september næstkomandi klukkan 16 opnar sýning á grafíslistaverkum úr safni hjónanna Hildar og Guðmundar Ármanns í Deiglunni á Akureyri. 

Á sýningunni verða yfir 40 grafíklistaverk eftir hina ýmsu grafíklistamenn bæði íslenska og erlenda. Grafíkverkin koma mörg af skiptum við samnemendur frá námsárum Guðmundar Ármanns og kollegum í grafíkinni, önnur hafa hjónin keypt á síðari árum. Einnig eru mörg verkanna gjafir frá listamönnum og Safnasafninu á Svalbarðsströnd.  

Aðeins brot af safni þeirra hjóna verður á sýningunni og var það þeirra ákvörðun að sýna einungis grafíklistaverk sem vitað er að viðkomandi listamaður hafi unnið sjálfur á þrykkplöntuna. Meðal annars eru verk á sýningunni eftir Ástu Sigurðardóttur, Jón Engilberts, Braga Ásgeirsson, Einar Hákonarson og Dröfn Friðfinnsdóttur. 

Á sýningunni verða einnig þrykk, dúkristur eftir óþekkta bókagerðamenn sem skornar voru í linoleumdúk og voru skreytingar við frásagnir, sögur eða annað myndefni sem birtist í dagblöðum eða öðru prentverki, dúkristur sem Guðmundur Ármann bjargaði  þegar prentverk Odds Björnssonar hætti hæðaprenti og skipti yfir í offsetprent. Þessar dúkristur þrykkti Guðmundur Ármann sjálfur og með sýningu á þeim vill hann benda á tengsl grafíklistarinnar við prentverk á Íslandi. Eitt þekktasta dæmið um þetta er frá 1913, en þá birtust slíkar myndar á forsíðu Morgunblaðsins um hið þekkta sakamál sem nefndist Dúksmálið. 

Í dag er staða listgrafíkurinnar slík að engin formleg kennsla er á Íslandi fyrir utan einstaka námskeið, sem grafík listamenn, félagið Íslensk grafík og nokkrir grunn- og framhaldsskólar landsins standa fyrir. Þetta er grafalvarleg staða fyrir þessa merku grein myndlistar að mati þeirra hjóna. Ísland er langt á eftir þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Nýverið var sent ákall til menntamálayfirvalda á norðurlöndunum frá öllum grafíkfélögum þar um að takmarka ekki tækifæri listamanna til að mennta sig til doktors í grafíklistinni.  

Með sýningunni vilja Hildur og Guðmundur Ármann vekja athygli á grafíklistinni og stöðu hennar á Íslandi. 

Sýningin stendur aðeins þessa einu helgi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó