Framkvæmdir við gönguleið á vesturströnd Hríseyjar hafa gengið vel og standa vonir til að hægt verði að klára verkefnið fyrir sumarið. Gönguleiðin er sögð bæta aðgengi, upplifun og öryggi notenda og aðlagar svæðið að fjölbreyttari útivistarhópum, eins og göngu-, hjóla-, sjósunds- og fuglaáhugafólki.
„Bláa gönguleiðin verður bætt með því að færa hluta leiðarinnar á vesturströndinni upp á bakkana frá veginum. Auk þess verður leiðin merkt, vegvísar settir upp og búnir til áningarstaðir og saga svæðisins gerð aðgengileg með upplýsingaskiltum. Aðgengi að sjósundaðstöðu við helstu sandfjöru eyjarinnar verður einnig bætt með stígagerð niður að sjó, „flugstöð“ eyjarinnar gerð að skjólsælum áningarstað auk þess sem gamalli steypuþró verður breytt þannig að hugað er að öryggi og þar búinn til myndrænn viðkomustaður. Að auki verður sögulegum upplýsingum safnað og miðlað og gömlu efnistökusvæði breytt í vin fyrir bæði fugla og gesti,“ segir á vef Akureyrarbæjar.