NTC

Göngugatan stendur ekki undir nafni

Göngugatan stendur ekki undir nafni

Stóran hluta ársins er göngugatan opin fyrir akandi umferð. Formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar segir ólíklegt að hægt sé að ná fram breytingum þar sem kaupmenn í miðbænum séu alfarið á móti því að lokað sé fyrir bílaumferð. Viðhorf íbúa bæjarins á lokun göngugötunnar var síðast skoðað árið 2016.

Reglur Akureyrarbæjar kveða á um að gatan sé lokuð fyrir bílaumferð í júlí alla daga frá kl. 11-17. Í ágúst er göngugatan lokuð fyrir bílaumferð fimmtudaga, föstudaga og laugardaga frá kl. 11-17.

Einu sinni var það þumalputtaregla að þegar hitinn færi yfir 15 gráður væri gatan lokuð fyrir bílaumferð. Ef 15 gráðu reglan væri enn í gildi hefði göngugatan verið lokuð langt fram eftir kvöldi marga daga í júli. Þetta hefur hins vegar ekki verið raunin í sumar.

Sjá einnig: Meðalhitinn á Íslandi aldrei hærri en í júlí á Akureyri

Kaupmenn ósáttir með lokun göngugötunnar

Í samtali við Kaffid.is segir Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar, að ekki séu allir kaupmenn í Hafnarstræti sáttir við handahófskendar lokanir og komið hafi upp leiðinda mál vegna þessa. Því hafi verið hætt að notast við 15 gráðu regluna.

Þórhallur segir að það sé full ástæða til að endurskoða hvort breyta þurfi reglunum, honum sjálfum finnist að loka mætti göngugötunni allt sumarið frá kl. 11-18. Það sé þó óvíst hvort hægt sé að ná breytingum í gegn. Samkvæmt Þórhalli vilja kaupmenn í miðbænum meina að viðskiptin dali þegar gatan er lokuð fyrir bílaumferð.

„Andstaðan við breytingar á opnun göngugötunnar koma frá verslunareigendum og kaffihúsaeigendum í miðbænum sem vilja alls ekki að götunni verði lokað fyrir bílaumferð,“ segir Þórhallur.

Viðhorf íbúa hefur ekki verið kannað

Kaffid.is hafði samband við Akureyrarbæ og fékk þær upplýsingar að ekki hafi verið gerð rannsókn á því hvort að verslun dali þegar göngugatan er lokuð fyrir bílaumferð. Á vefsíðunni gongugotur.reykjavik.is segir að í nágrannalöndum okkar hafi verslun aukist við gönguvæðingu.

Viðhorf íbúa bæjarins á lokun göngugötunnar var síðast skoðað árið 2016. Kaffid.is hefur jafnframt gert óformlega könnun en samkvæmt henni virðist meirihluti bæjarbúa vilja hafa göngugötuna lokaða fyrir bílaumferð.

Sjá einnig: Kannar hvort það sé áhugi á því að loka Göngugötunni alveg fyrir bílaumferð yfir sumartímann

Nóg til af bílastæðum

Bílastæðin í göngugötunni eru 15 mínútna stæði. Með smáforritinu KORTer er hægt að sjá staðsetningu viðkomandi og þá göngufjarlægð sem er um svæðið. Samkvæmt úttekt Kaffisins eru 793 bílastæði í 5 mínútna göngufjarlægð við miðja göngugötuna á Akureyri. Á 500 metra radíus í miðbænum, með ráðhústorgið í miðjunni, eru að minnsta kosti 1205 bílastæði.

Akureyrarbær hefur safnað gögnum um nýtingu bílastæða í miðbæ Akureyrar undanfarin ár. Samkvæmt greiningu bæjarins er nýting bílastæða í kringum 50%. Það eru því yfirleitt um 540-900 bílastæði laus á hverjum tíma yfir daginn.

Taktu þátt í könnuninni:

Sambíó

UMMÆLI