Akureyringurinn Brynjar Ingi Bjarnason, knattspyrnumaður úr KA, hefur staðið sig frábærlega með íslenska landsliðinu í knattspyrnu í þremur vináttulandsleikjum undanfarið. Brynjar hefur spilað vel í vörn Íslands og nýtt tækifærið vel og þá skoraði hann glæsilegt mark í 2-2 jafntefli gegn Póllandi í gær.
Sjá einnig: Stórglæsilegt fyrsta landsliðsmark Brynjars Inga
Brynjar er aðeins 21 árs gamall en hann hefur aldrei verið valinn í landslið Íslands áður, ekki í neinum aldursflokki. Nú hefur hann spilað þrjá A-landsliðsleiki gegn Mexíkó, Færeyjum og Póllandi. Brynjar var í byrjunarliði Íslands í öllum leikjunum og stóð sig vel í þeim öllum.
„Þetta er bara rosalega stórt fyrir mig. Þetta er stór gluggi fyrir mig að sýna hvað ég get gert og hverju ég vil áorka. Þetta var góður auglýsingagluggi fyrir mig og mér finnst ég vera að stíga þetta skref mjög vel,“ sagði Brynjar Ingi í viðtali á RÚV eftir leikinn gegn Póllandi í gær en viðtalið í heild má sjá hér.
Akureyri.net greindi frá því í gær að KA hafi borist að minnsta kosti tvö tilboð erlendis frá í miðvörðinn öfluga. Að sögn miðilsins eru tilboðin frá Ítalíu og Rússlandi.
UMMÆLI