Íslandsmeistaramót E-hjólreiða fór fram síðastliðinn laugardag, 24. febrúar, og meðlimir í Hjólreiðafélagi Akureyrar voru sigursælir.
Í A-flokki kvenna sigraði Hafdís Sigurðardóttir og tryggði sér þar með Íslansmeistaratitilinn í E-hjólreiðum annað árið í röð. Silja Jóhannesdóttir varð í öðru sæti og Sóley Kjerúlf Svansdóttir í því þriðja en þær koma einnig báðar úr HFA.
Í B-flokki karla kepptu þeir Ómar Þorri og Tryggvi Kristjánsson úr HFA. Ómar lenti í 2. sæti í B-flokki og í 5. sæti í heildarkeppni karla.
Mótið var haldið á Zwift og hjólað var tvo hringi á svokallaðri Richmond UCI leið, sem er eftirlíking af heimsmeistaraleið frá Richmond, Virginia, USA. Samtals var farið 32,4 Km og 260 metra hækkun, konur hjóluðu á undan körlunum og voru A og B flokkar ræstir saman.
Bikarmót E-hjólreiða var haldið á Zwift í þrem pörtum, tvö mót í seinnihluta janúar og eitt í byrjun febrúar. Þurfti að taka þátt í þrem keppnum og stig tveggja bestu gilda til bikarmeistara.
Í A-flokki karla tóku Stefán Garðarsson og Þorbergur Ingi Jónsson þátt. Í B-flokki karla tóku Ómar Þorri Gunnlaugsson og Rögnvaldur Már Helgason úr HFA þátt, Rögnvaldur náði 3. sæti í bikarmeistaramótinu. Í A-flokki tóku Hafdís, Silja og Sóley þátt og náði Sóley 3. sætinu á eftir Akureyringnum Bríet Kristý Gunnarsdóttur sem varð bikarmeistari fyrir Tind, og Björgu Hákonardóttir úr Breiðablik sem varð í öðru sæti.
„Við þökkum Tind fyrir að halda E-hjólreiðamót og gera þessa vetrarmánuði meira spennandi fyrir reiðhjólakeppendur, virkilega vel gert!Við óskum þátttakendum okkar til hamingju með frábæran árangur! Áfram Hjólreiðafélag Akureyrar,“ segir í tilkynningu HFA á Facebook.
UMMÆLI