NTC

Gjöf til minningar um Sigurð Jónsson í YstafelliLjósmynd: Þineyjarsveit

Gjöf til minningar um Sigurð Jónsson í Ystafelli

Nýverið fékk Þingeyjarsveit afhenta veglegan setbekk að gjöf til minningar um Sigurð Jónsson í Ystafelli og sundafrek hans. 

Bekkurinn er gjöf frá afkomendum Sigurðar Þingeyings og var hann settur niður við sundlaugina á Laugum enda er staðurinn táknrænn því á Laugum byrjaði ævintýrið.  Sigurður var um áratugaskeið einn besti sundmaður landsins og var fyrsti sundsigur hans á drengjamóti sem haldið var í Tjörninni á Laugum árið 1937. Næstu ár þar á eftir tók við meiri og harðari keppni bæði innan lands og utan og keppti Sigurður meðal annars á Ólympíuleikunum í London árið 1948.  Sigurður var alla tíð trúr uppruna sínum og keppti alltaf innanlands undir merkjum HSÞ. Þetta segir á vefsíðu Þingeyjarsveitar

Hér að neðan má svo lesa ávarp Benedikt Sigurðarsonar sem flutt var við afhendingu gjafarinnar, þar sem fari var yfir lífshlaup Sigurðar.

Systkinin frá Ystafelli

„Kæra fjölskylda og afkomendahópur Sigurðar Þingeyings – og aðrir viðstaddir, . . .

. . við erum stödd hér á Laugum í Reykjadal . . til að fagna 100 ára afmæli Sigurðar Jónssonar – – sem fæddur var í Yztafelli 23. júlí 1924. Við erum í leiðinni að heiðra Ólympíuævintýri sveitastráks sem varla er hægt að segja að hafi komist í almennilega sundlaug fyrr en eftir að hann varð tvítugur.

Siggi – var nærri miðju systkinahópsins í Felli þar sem fjölskyldan bjó – en þegar hann var 11 ára tók faðir hans við skólastjórastöðu Alþýðuskólans á Reykjum í Hrútafirði sem hann gengdi í tvö ár. Fjölskyldan fór öll vestur að Reykjum seinni veturinn – og þar mun Sigurður hafa lært að synda.

Þegar Reykjadvölinni lauk – virðast þau hjón Helga og Jón hafa gert það endanlega upp við sig að festa sig við búskapinn í Yztafelli; – sambúskap með Marteini var slitið – jörðinni skipt milli bræðra og hjónin reistu íbúðarhús það sem enn stendur. Siggi – snemma stór og sterkur – gekk til steypuverka við húsbygginguna – gekk til sláttar – og yfirleitt allra verkefna á móti fullorðnum – frá því fyrir fermingu.

Hann keppti fyrst á drengjamóti á Laugum 1937 – – og þótt hann hefði enga æfinga-aðstöðu þá var hann keppandi á fyrir hönd HSÞ (Héraðssambands Þingeyinga) á Landsmóti Ungmennafélaganna – – á Hvanneyri í Borgarfirði 1943 – – en þar var synt í „torfhlöðnum drullupolli – – með engri upphitun“ að hans eigin sögn.

Hann fékk að fara á Laugaskóla – átján ára – – og þaðan útskrifaðist hann úr „Eldri deild“ vorið 1944. Siggi var svo stálheppinn að kynnast á Laugum Þorgeiri Sveinbjarnarsyni sem var íþóttakennari – sundið lá vel fyrir honum – – og gamla 11 m sundlaugin í kjallara skólahússins var fljótt frekar stutt . . fyrir næstum tveggja metra manninn.

Þess vegna segja sögur – sannar og ýktar – frá því að sundmaðurinn hávaxni – „með dökka hárið og alvarlega svipinn“ – tók að æfa sig í Tjörninni – – og gekk svo langt að synda þar undir ís og innan um jaka – – jafnvel í krapi sem síðan fraus og sást þá slóð hetjunnar í ísnum dögum saman – meira að segja úr gluggunum á kvennavistinni í Gamla-skóla.

Siggi lauk skólavist á Laugum 1944, tvítugur að aldri – og fór til Reykjavíkur um áramótin á eftir – – vann sem „gervismiður“ við að byggja blokk í Eskihlíðinni . . og bjó um tíma á byggingarstaðnum – óupphituðum.

Hann var hins vegar svo heppinn að Þorgeir Sveinbjarnarson – gamli kennarinn hans frá Laugum – var þá orðinn Sundhallarstjóri í Reykjavík – – Þorgeir réði Sigga í vinnu í Sundhöllinni – – og til að tryggja honum möguleika á æfingatímum þá fékk hann lykil að Höllinni – – og synti alvöru-æfingar – stundum bæði fyrir og eftir vaktir.

Á landsmóti UMFÍ á Laugum 1946 – var keppt í Tjörninni – og þar var Siggi á heimavelli – sigursælastur allra.

Næsta árið var farið að bollaleggja um undirbúning fyrir Ólympíleika í London 1948 – – þá var orðinn til nokkuð snarpur hópur ungra sundmanna í Reykjavík – sem Siggi keppti við og keppti með – – Norðurlandamót og Evrópumeistaramót . . . meðal annars í Monaco 1947.

Siggi hafði ekki aðgang að 50 m sundlaug á Reykjavíkursvæðinu – en keppni Evrópumeistara og Ólympíuleika fór fram í 50m laugum – – þá var það aftur Þorgeir Sveinbjarnarson sem hlutaðist til um að Siggi fengi vinnu við sundkennslu í Laugarskarðs-laug við Hveragerði – sem er 50 m laug. Þar kenndi hann hópum barna – og náði að æfa sig samhliða – til að stilla sinn takt í sundin,

200 m bringusund – var hans sund.

Hann var í fyrsta stóra keppendahópi Íslands á Ólympíuleikum eftir Seinni heimstyrjöld í London 1948. Keppnislaugin stendur þar enn – við Chrystal Palace . . og undirritaður var svo heppinn að fá að fara þar i sund – meðan Ólympíukeppendur Íslands á leið til Sydney árið 2000 tóku létta æfingu meðan beðið var eftir flugi.

Siggi var fyrstur íslenskra sundmanna til að komast áfram í milliriðla í einstaklingskeppni Ólympíuleika – -og hann var sá eini sem komst áfram á hreinu bringusundi 1948 – – hinir syntu allir flugsund en þá hafði flugsundið fram að því verið viðurkennt sem lögmætt bringusund . . . en varð frá þeim leikum aðskilin grein á heimsvísu.

Siggi keppti áfram á alþjóðavettvangi árin 1949 og 1950 til 1951 – samhliða námi í Ingimarsskóla og Íþróttakennaraskólanum – þaðan sem hann útskrifaðist vorið 1951. Siggi mætti á stofnfund Sundsambands Íslands árið 1951 fyrirr hönd Hérðassambands Þingeyinga.

Siggi keppti alla tíð fyrir Héraðssamband Þingeyinga – HSÞ – og naut þess að vera virkur félagi í Þingeyingafélaginu og Þingeyingakórnum á Reykjavíkurárum sínum frá 1944 til 1951 – hann fór alltaf heim á sumrin og sinnti heyskap og allskonar framkvæmdum í Yztafelli. Til aðgreiningar frá öðrum Sigurði Jónssyni – sundmanni í KR – var Siggi nefndum Þingeyingur – og festist það nafn við hann þannig að fjöldi fólks sem var honum samtíða fyrir sunnan – umgekkst hann með því nafni – – og heiðraði um leið þá tryggð sem hann sýndi heimasveitum sínum.

Siggi var hávaxinn og svipsterkur – frá barnsaldri – og stóð upp úr í fjölmenni. Þingeyingar í Reykjavík dáðu hann og fylgdu honum jafnvel á sundmót – – og heima í sveit vakti árangur hans athygli og aðdáun.

Menntaskólastúlka í Reykjavík kom auga á hann í Sundhöllinni – – og einhvern tíma eftir útkrift Kolbrúnar Bjarnadóttur með stúdentspróf frá MR vorið 1949 varð samband þeirra opinbert.

Kolla og Siggi giftu sig 7.júlí 1951 – – og fluttu vestur á Patreksfjörð. Keppnisferill Sigurðar Þingeyings sem sundmanns var þar á enda – og við ræðum það ekki meira í dag. Sjálfur talaði hann ekki mikið um sundferil sinn – – en árið 2000 var 10 mann sundhópur við æfingar í Akureyrarlaug – til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í Sydney – – Siggi fékk að fylgjast með æfingum einn sólardag – – verja tíma með þjálfurum og sundmönnum og borða með þeim kvöldverð hjá okkur Helgu í Löngumýri 4. Þá og þaðan eftir fengum viið ýmislegt að vita og ræða sem ekki er tíundað hér.

Í Stórutjarnaskóla og síðan Sundlaug Húsavíkur varð Siggi fastagestur í sundi – – og var lengi í sundi og heitapottinum seinni árin – – en á erilsömustu búskaparárunum var bara farið í sund með krakkana á rigningardögum – þegar ekki var hægt að heyja eða gera við girðingar og höggva skóg.

„Gott fólk; — hér er bekkur úr gríðarþungu graníti – – til minningar og til heiðurs þessu ólympíuævintýri og sundferli Sigurðar Þingeyings. Sigurður var gerður úr þéttu efni – – hann var líklega að talsverðu leyti úr grjóti ef svo mætti orða það – en hann var fyrst og fremst úr traustu efni og sýndi það með tryggð sinni við sitt gamla Héraðssamband – – við Laugaskóla og við Yztafell og sína Köldukinn – – þar sem hann lifið og starfaði frá 1958 til dauðadags.

Hann var Þingeyingur;

Við efhendingu hvíldarbekks við Sundlaug Laugaskóla 20. júlí 2024

Benedikt Sigurðarson er tengdasonur Sigurðar Þingeyings og fyrrverandi formaður Sundsambands Íslands 2000-2006 og stjórnarmaður í SSÍ um 10 ára skeið.“

Fyrir hönd Þingeyjarsveitar þakka ég fjölskyldunni höfðinglega gjöf og HÉR má sjá myndir frá afhendingu granítbekksins.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó