Ginola ganga frá mikilvægum samningum í tæka tíð fyrir Pollamótið

Ginola ganga frá mikilvægum samningum í tæka tíð fyrir Pollamótið

Pollamót Þórs og Samskipa fer fram um helgina og eru liðin sem taka þátt nú í fullum undibúningi.

Í dag – miðvikudaginn 3. júlí kl. 14.14 – í höfuðstöðvum Ginola í Villefranche í Suður-Frakklandi,skrifuðu Sir Hlynur F. „Gaffer“ Þormóðsson og John „#2“ Cariglia, OBE, undir áframhaldandi starfssamning við Ginola.

Þetta þykir tíðindum sæta í fótboltaheiminum enda hafa samningaviðræður dregist á langinn og þótt erfiðar mjög. Í fréttatilkynningu frá Ginola er ekki gefið upp til hversu langs tíma samningurinn gildir eða um kaup og kjör þeirra Gaffers og #2.

Fyrir hönd Ginola skrifuðu stjórnarformaðurinn Duke John Cariglia og formaður stjórnar, Lord Hlynur F. Þormóðsson, undir samninginn. Jafnframt var gengið frá ráðningu Símons H. Z. Valdimarssonar í stöðu #3 sem mun hafa það hlutverk að aðstoða #2 í að aðstoða Gaffer. Einnig var Anton Rúnarsson ráðinn til 14 daga sem „Eartha“ Kit Manager. Mikil óvissa ríkir þó um áframhald þess samstarfs.

Við undirritun sagði Duke John Cariglia: „Það er mikill léttir og jafnframt heiður að hafa loks gengið frá þessum samningi. Eins og alheimur veit sögðu þeir félagar af sér í kjölfar sigurs á síðasta Pollamóti, en að mati okkar Lord Hlyns F. Þormóðssonar, formanns stjórnar Ginola, var það algjörlega nauðsynlegt að endurnýja samninginn í kjölfar fyrrnefnds árangurs og jafnframt þeirra miklu fjárfestinga sem Ginola hefur farið í á síðustu árum. Í því samhengi má nefna leikmenn eins og Jóhan Þórhallsson, Andra Albertsson og Gunnar GK Jónsson. Einnig var það gríðarlega mikilvægt að undirrita samning við Símon H. Z. Valdimarsson sem #3. Hann er fyrrum MVP Ginola og þær samningaviðræður tóku lengri tíma en áætlað var enda fékk Símon gylliboð frá Katar, Kína og Akureyri. En Ginola er himinlifandi yfir því að hann ákvað að skrifa undir og í þokkabót fyrir minna fé en aðrir buðu honum, sem sýnir alúð Símons og ást á verkefninu. Varðandi samninginn við „Eartha“ Kit Manager segi ég sem minnst, en vísa á Lord Hlyn í því samhengi. Að öðru leyti vil ég fyrir hönd Ginola lýsa yfir mikilli tilhlökkun fyrir okkar tíunda Pollamót Þórs og Samskipa. Og við getum ekki beðið eftir því að skemmta okkur og öðrum.“

Pollamótið hefur fyrir löngu skipað sér sess sem einn af stærstu viðburðum ársins hjá eldri íþróttakempum þar sem konur og karlar koma saman, hnýta á sig takkaskóna og sýna gamla og nýja takta á knattspyrnuvellinum. 

Mótið er haldið 5. og 6. júlí á Þórsvellinum á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó