Gerum betur í vetur

Gerum betur í vetur

Elín Ósk Arnarsdóttir skrifar:

Fyrsti dagur vetrar var í vikunni. Jólavörurnar eru farnar að tínast í búðir. Snjórinn kom en fór reyndar strax aftur. Já, enn einn veturinn er sannarlega genginn í garð. Sumir bölva þessum tíma árs sem einkennist af myrkri og kulda. Sumir flýja jafnvel til heitari landa þar sem hægt er að sleikja sólina allt árið um kring. En veturinn er ekki alslæmur. Það er hægt að leika sér við börnin í snjónum og koma inn í rjúkandi heitt kakó. Kúra inni undir teppi meðan úti geisar stormur. Svo er alltaf klassískt að skella sér á skíði eða snjóbretti með góðum félagsskap. Lærðu að elska snjóinn og veturinn verður að tilhlökkunarefni. Hver árstíð hefur sinn sjarma og þarf maður að kunna meta það.

Mér finnst hins vegar ekki mjög sjarmerandi á veturna, og reyndar stundum vorin líka, hvað myndast mikil svifryksmengun. Okkur er annt um öryggi okkar og setjum nagladekk á bílinn. Það er afskaplega skiljanlegt. Engum langar að keyra niður brekku í fljúgandi hálku á sumardekkjum. En þegar göturnar eru auðar reglulega yfir veturinn, þá spæna naglarnir malbikið upp og þetta svifryksmistur leggst yfir bæinn. Allt verður grátt og drungalegt. Leikskólabörnin sleppa útivistinni. Og þeir sem glíma við öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt að halda sig inni. Þó að maður sleppur auðvitað ekki þar sem rykið smýgur líka inn í húsin. Þetta er ekki mjög heillandi og finnst fæstum spennandi að anda þessu inn í líkama sinn. En hvernig komum við í veg fyrir þetta?

Augljósasta lausnin er auðvitað að forðast allan akstur þegar færið er þannig. Bíll á nagladekkjum ætti helst að nota einungis þegar það er hálka og snjór. Hina dagana er upplagt að ganga á milli staða, hjóla eða taka strætó. Sumir kvarta yfir því að það sé nú hálka á göngustígunum en þá er bara að skella broddum undir skóna. Vandamál eru til að leysa þau.

Á tímum hamfarahlýnunar er mikilvægt að við leggjumst öll á eitt og breytum lifnaðarháttum okkar svo að við getum lifað í sátt við náttúru og dýr. Hluti af þessum breytingum er að minnka notkun einkabílsins. Það er enginn að tala um að hætta að nota þessa fínu tækni sem maðurinn fann upp. Við viljum geta notað bílinn í ákveðnum tilgangi eins og í lengri ferðalög, flutning á hreyfihömluðum eða í illskuveðri svo dæmi séu tekin. En í okkar daglega lífi ætti einkabíllinn ekki að leika stórt hlutverk. Það á að vera undantekningin að við notum bílinn, ekki reglan. Og þetta markmið verður enn mikilvægara á þessum tíma árs svo við getum minnkað þessa blessuðu svifryksmengun. Gerum betur í vetur. Göngum meira og ökum minna til að við getum andað að okkur hreinu og fersku lofti.

*The biggest room in the world is the room for improvement*

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó