Gert ráð fyrir batnandi afkomu í rekstri Akureyrarbæjar

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2018 til 2021 var samþykkt í bæjarstjórn í vikunni. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar sátu hjá í atkvæðagreiðslunni.

Í ætluninni er gert ráð fyrir batnandi afkomu í rekstri öll árin fram til ársins 2021 og að árið 2018 verði rúmir 2,2 milljarðar afgangs fyrir fjármagnsliði og að rekstrarniðurstaðan verði jákvæð um 877 milljónir króna. Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar rúmir 24,6 milljarðar árið 2018 en gjöld tæplega 22,5 milljarðar.

Í kynningu sem formaður bæjarráðs, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, flutti í bæjarstjórn komu fram atriði sem varða einstaka málaflokka í rekstri bæjarins árið 2018.

Útfjöld til félagsþjónustu munu aukast um 191 milljón króna árið 2018. Umönnun og þjónusta við fatlaða verður aukin sem og heimaþjónusta. Útgjöld til fræðslu- og uppeldismála aukast um 218 milljónir króna.

Útgjöld til æskulýðs- og íþróttamála aukast um 55 milljónir á milli ára . Þar ber hæst að frístundastyrkir til barna og ungmenna hækka um 50% og hafin verður uppbygging á athafnasvæði siglingaklúbbsins Nökkva. Þá verður lokið frágangi við heita potta og lóð við Sundlaug Akureyrar. Einnig verður ráðist í endurnýjun á gúmmíkurli á sparkvöllum við grunnskóla bæjarins.

Útgjöld til menningarmála aukast um 50 milljónir króna á milli ára eða um 6,8%. Framlög til Menningarfélags Akureyrar verða aukin í tengslum við endurnýjun á menningarsamningi við ríkið og lögð verður áhersla á að ljúka uppbyggingu við Listasafnið.

Á sviði umferðar- og samgöngumála aukast útgjöld um 85 milljónir króna. Þar er höfuðáhersla lögð á aukið viðhald gatna og stíga, aukið fjármagn til götulýsingar, metanvæðingu strætisvagna bæjarins og að farið verði í úttekt og hönnunarvinnu vegna fyrirhugaðrar samgöngumiðstöðvar.

Útgjöld til umhverfismála aukast um 61 milljón á milli ára eða um 27%. Framlag til fegrunar og hirðingar opinna svæða verður aukið og samstarf við Vistorku á sviði umhverfismála eflt.

Álagningarprósenta fasteignaskatts er lækkuð um 8% auk þess sem afsláttur til elli- og örorkulífeyrisþega verður aukinn.

Stærstu framkvæmdir sveitarfélagsins liggja í B-hluta fyrirtækjunum en á næsta ári verður 2 milljörðum varið í framkvæmdir á vegum Norðurorku m.a. vegna heita- og kaldavatnskerfis og fráveitu og 307 milljónum vegna hafnsögubáts og bryggjuframkvæmda á vegum Hafnarsamlagsa Norðurlands.

Sjá einnig:

Miðaverð í Sundlaug Akureyrar hækkar

Stefnuleysi meirihlutans í nýrri fjárhagsáætlun

Meiri fjölskylduafsláttur árið 2018 – Mataráskrift hækkar í verði

60 milljónir króna í nútímavæðingu leik- og grunnskóla

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó