NTC

Gerður Helgadóttir prýðir tuttugasta jólakort Guðmundar Ármanns

Gerður Helgadóttir prýðir tuttugasta jólakort Guðmundar Ármanns

Listamaðurinn Guðmundur Ármann Sigurjónsson hefur frá árinu 2003 heiðrað íslenska myndlistarmenn á jólakortum sem hann sendir, ásamt eiginkonu sinni Hildi Maríu, til fjölskyldu og vina yfir hátíðarnar. Kortið í ár var það tuttugasta í röðinni og Gerður Helgadóttir var myndefnið.

„Sýni ykkur hér kort sem er það tuttugasta í röð um íslenska myndlistarmenn. Á þessum árum hefur þetta verið verkefni mitt á haustmánuðum sem við Hildur höfum sent fjölskyldunni og vinum sem jólakveðjur. En fyrsta kortið sem var um Kjarval 2003, að þessu sinni er það Gerður Helgadóttir sem er myndefnið. Á aðeins um 30 ára starfsferli sem myndlistamaður vinnur hún stórvirki í íslenskri myndlitarsögu, hún velur þá grein myndlistar, höggmyndalist/skúlptúr, steind gler og mósaik sem þá var algengast að karlar veldu sér sem viðfangsefni,“ skrifar Guðmundur á Facebook síðu sinni en kortið má sjá á myndinni sem fylgir fréttinni.

Jólakortin eru grafíklistaverk sem Guðmundur leggur mikla vinnu í. Guðmundur er einn af þeim listamönnum sem var í fararbroddi endurvakningar grafíklistarinnar árið 1969 þegar blómaskeið íslenskrar grafíklistar hófs og hún öðlaðist varanlegan sess í íslenskri myndlist.

Grafíkmyndir eru unnar með því að rista eða æta mynd í grafíkplötu, sem getur verið málmplata, steinn, tré eða línóleum dúkur. Guðmundur notast við línóleum dúk og það fer eftir því hversu margir litir eru á kortinu hversu oft hann þrykkir.

Kortin eru afar vinsæl hjá þeim sem þau fá enda um metnaðarfull listaverk að ræða. Guðmundur sendir kortin til fleiri en 60 manns fyrir hver einustu jól en enn fleiri hafa óskað eftir því að komast á jólakortalista þeirra hjóna.

„Í þessu 20. korti vel ég að sýna hana (Gerði) við að logsjóða abstrakt víraverk, hluta af einum glugga í Skálholti. Þar sigraði hún í samkeppni 1958 um gerð steindra glugga fyrir kirkjuna. Hún hóf sitt myndlistarnám í Handíðaskólanum, þá aðeins 17 ára ( en á þeim tíma hét sá skóli sem varð síðar varð Myndlista- og handíðaskóla íslands).“

„Hún fer síðar til Ítalíu og innritast þar 1947 í Florens Akademy of Fine Arts. Heldur síðan, 1949 til Parísar og hefur nám við Académie dela Grande Chaumiere. Þar var aðal kennari hennar hinn merki myndhöggvari Ossip Zatkin. 1950 – 1951 er hún í enkaskóla sama myndhöggvara.“

„Mörg opinber listaver Gerðar prýða opinberar byggingar, Kópavogs og Skálholts kirkju steind gler verk, mikilfengleg verk. Einnig hið risastóra mosaik verk á Tollhúsinu á Hafnarstræti í Reykjavík svo eitthvað sé nefnt,“ skrifar Guðmundur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó