Gellur sem mála í bílskúr halda sýningu í Deiglunni næstu helgi. Opið verður föstudaginn 2. október klukkan 16 til 22 og á laugardaginn 3. október klukkan 14 til 17.
Í hópnum eru níu listamenn sem hittast vikulega og mála saman í bílskúr. Átta kynntust í Listfræðslunni á Akureyri og stofnuðu klúbbinn Gellur sem mála í bílskúr í janúar 2016. Fyrir skömmu bættist nýr listamaður við þannig að nú eru tveir karlmenn í hópnum sem bera heiðurstitilinn að vera Gella. Markmið hópsins er að hittast og styðja hvert annað í listsköpuninni og hafa gaman.
Hópurinn velur sér sameiginlegt þema fyrir hverja sýningu en hver og einn vinnur svo á persónulegan hátt með ólíkri nálgun á viðfangsefnið og útkoman verður skemmtileg blanda. Heiti sýningarinnar er 50×60 en hópurinn setti sér það markmið að mála a.m.k eina mynd í þeirri stærð fyrir sýninguna.
Á sýningunni verða verk af ýmsum toga unninn í akríl, olíu og í vatnslitum í stærð 50×60 en einnig í öðrum stærðum. Í hópnum eru Anna María, Barbara, Björgvin, Harpa, Jóhanna, Jón, Jónína, Kristín og Líney.
Facebook: www.facebook.com/gellursemmala
Instagram: @gellursemmala
Sýningin er unnin í samstarfi við Gilfélagið.
UMMÆLI