Geir skoraði þrjú gegn PSG

Geir skoraði þrjú gegn PSG

Akureyringarnir Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason þreyttu frumraun sína í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og er óhætt að segja að verkefnið hafi verið risavaxið því lið þeirra, Cesson-Rennes, mætti stjörnum prýddu liði PSG í fyrstu umferð deildarinnar.

PSG er með eitt albesta handboltalið heims um þessar mundir en á meðal leikmanna liðsins eru Mikkel Hansen, skærasta stjarna ríkjandi Ólympíumeistara Danmerkur auk margfaldra Heims-, Evrópu- og Ólympíumeistaranna Thierry Omeyer, Luc Abalo og Nikola Karabatic svo einhverjir séu nefndir.

Leikurinn var jafn lengi framan af og munaði til dæmis aðeins einu marki í hálfleik. PSG reyndist svo sterkari aðilinn þegar á leið og vann að lokum sex marka sigur, 28-22.

Geir skoraði þrjú mörk fyrir Cesson-Rennes og lék stærstan hluta leiksins, bæði í vörn og sókn. Guðmundur Hólmar komst ekki á blað enda lék hann lítið í sókninni en var í lykilhlutverki varnarlega.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó