Geir Kristinn og Sigurpáll Árni taka við ÞórsliðinuFrá undirritun samninga í dag. Sigurpáll Árni, Árni Rúnar Jóhannsson, formaður Handknattleiksdeildar Þórs, og Geir Kristinn Aðalsteinsson. Mynd: thorsport.is

Geir Kristinn og Sigurpáll Árni taka við Þórsliðinu

Handknattleiksdeild Þórs hefur samið við bræðurna Geir Kristin Aðalsteinsson og Sigurpál Árna Aðalsteinsson um að taka við þjálfun Þórsliðsins. Ráðningin er tímabundin út þetta tímabil. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Þórs í dag.

„Það er líklega óþarfi að kynna þá bræður fyrir handknattleiksunnendum innan félagsins enda báðir fyrrum leikmenn Þórs og hafa í gegnum tíðina unnið fyrir félagið að hinum ýmsu málum. Þeir eiga báðir að baki feril sem leikmenn og þjálfarar í handbolta, hafa starfað í kringum íþróttina um árabil og hafa víðtæka þekkingu á handknattleikshreyfingunni. Þeir spiluðu báðir handbolta með Þór upp alla yngri flokkana hjá Þór og með yngri landsliðum Íslands, auk þess sem Sigurpáll Árni á að baki nokkra A-landsleiki. Báðir spiluðu auk þess um tíma með KA og KR og Sigurpáll Árni einnig með Fram og Selfossi,“ segir í tilkynningunni.

Sigurpáll Árni var þjálfari meistaraflokks Þórs á árunum 2002-2005 og Geir Kristinn var þjálfari 2. flokks hjá Akureyri handboltafélagi 2008-2010 þegar liðið vann deildarmeistaratitil og fór tvisvar í bikarúrslit. Þá hafa báðir einnig starfað við þjálfun í yngri flokkum Þórs í gegnum árin.

Geir Kristinn er formaður Íþróttabandalags Akureyrar, en mun taka sér tímabundið leyfi frá því embætti á meðan hann starfar fyrir handknattleiksdeild Þórs.

Eins og kunnugt er ákvað stjórn handknattleiksdeildarinnar á dögunum að segja upp samningi við þjálfarann Stevce Alusovski, sem þjálfað hefur Þórsliðið frá því síðsumars 2021. Halldór Örn Tryggvason, sem hafði verið ráðinn aðstoðarþjálfari með Stevce, er í fæðingarorlofi, steig aftur tímabundið inn í starfið og stýrði liðinu til sigurs gegn ungmennaliði Fram í liðinni viku. Halldór Örn stýrir liðinu áfram fram yfir næsta leik – heimaleik gegn ungmennaliði Selfoss föstudaginn 2. desember – en heldur síðan áfram með fæðingarorlofið. Geir Kristinn og Sigurpáll Árni munu á sama tíma koma sér inn í starfið og taka svo við þjálfun liðsins alfarið út yfirstandandi leiktíð.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó