Gefa út lag til minningar um Jenný Lilju

Lagið, Einn dag í senn, er samið um Jennýju Lilju Gunnarsdóttir sem lést af slysförum aðeins þriggja ára gömul árið 2015. Höfundar lagsins vilja halda minningu hennar á lofti með útgáfu lagsins. Rósa Ásgeirsdóttir samdi lagið við texta Katrínar Aspar Jónsdóttur. Lagið er hægt að nálgast með því að styrkja útgefendur á Karolinafund síðu þeirra, en allur ágóði rennur í minningarsjóð Jennýjar Lilju.

Þegar Katrín Ösp Jónsdóttir fékk fréttirnar af andláti Jennýjar Lilju, þá þriggja ára, settist hún niður og skrifaði ljóðið Sorg.

„Þann dag fannst mér sorgin áþreifanleg og ég gat ekki hætt að hugsa til Rebekku (móður jennýjar) og fjölskyldunnar allar.Ljóðið sat lengi í mér og ég gat ekki hætt að hugsa um það svo ég ákvað að senda gömlum skólabróður ljóðið og spurði hvort hann sæi fyrir sér að hægt væri að semja lag við það. Þessi skólabróðir minn, Stefán Jakobsson, var fljótur að svara, það yrði að setja vængi á þetta ljóð,“ segir Katrín.

Rósa Ásgeirsdóttir samdi lagið við textann en það kom upp í huga hennar þegar þær vinkonur töluðu um ljóðið.

„Meðan hún sat hjá mér kom lag upp í huga hennar, hún tók upp símann sinn og raulaði það inn. Nokkrum dögum síðar var komið uppkast af laginu okkar.“

Kristján Edelstein útsetti svo hljóðfæraleikinn í laginu og Stefán Jakobsson söng. Foreldrar Jennýjar völdu nafnið, Einn dag í senn, á lagið. Þegar þetta er skrifað hafa safnast 976 evrur til styrktar verkefninu en upprunalega markmiðið var að safna 900 evrum. Allur auka ágóði rennur í minningarsjóð. Hægt er að kaupa lagið og styrkja sjóðinn í leiðinni með því að smella hér.

 

Sambíó

UMMÆLI