Þjónusta sú sem barna- og unglingageðteymi (BUG) hefur veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) mun færast til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) frá og með 1. október næstkomandi. Bráðaþjónusta verður áfram veitt á SAk.
Stjórn Geðverndarfélags Akureyrar lýsti á dögunum yfir þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðra breytinga á þjónustu við börn og ungmenni Norður- og Austurlandi sem eru að glíma við geðraskanir og tók undir ályktun Geðhjálpar þar að lútandi.
Framkvæmdastjórnir SAk og HSN taka undir mikilvægi þess að standa þurfi vörð um þjónustu í heimabyggð og mikilvægt sé að efla geðheilbrigðisþjónustu barna í nærumhverfi þeirra og fjölskyldna þeirra.
Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands í samstarfi við Heilbrigðisráðuneytið (HRN) rýndu fyrirkomulag þjónustunnar með það fyrir augum að greina hvernig þjónusta við börn og ungmenni með geðrænan vanda verði sem best að teknu tilliti til þeirra úrræða sem fyrir eru á svæðinu.
Niðurstaða skoðunar HSN, SAk og HRN leiddi í ljós að sú þjónusta sem veitt er í dag af barna- og unglingageðteymi (BUG) SAk fellur vel að viðmiðum stjórnvalda um annars stigs þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu, að undanskildum bráðamálum. Með tilfærslu þjónustunnar og styrkingu og eflingu á geðheilsuteymi HSN er talið að samfella náist milli allra þjónustustiga þar sem geðheilsuteymið mun einnig sinna bráðamálum á SAk í samvinnu við barnadeild. Geðheilsuteyminu er ætlað að sinna börnum og ungmennum með miðlungs til alvarlegan flókin vanda en börn með flókinn geðvanda sem þurfa innlögn til lengri tíma krefjast flutnings og aðkomu BUGL eins og áður.
Þjónustan er því ekki að taka öðrum breytingum en þeim, að málefnum sem sinnt hefur verið á SAk, verður nú sinnt af geðheilsuteymi HSN. Sama teymið mun þ.a.l. koma að þjónustu barna á öllum þjónustustigum, boðleiðir verða þannig styttar og einfaldaðar til muna og börn og fjölskyldur þeirra hafa aðgang að öflugri þjónustu í heimabyggð á Norður- og Austurlandi.
„Það er til mikils að vinna að ná samfellu í þjónustu þessa skjólstæðingahóps og við leggjum mikla áherslu á gott samstarf þannig að þjónustan haldi áfram í heimabyggð í nálægð við börn sem þurfa á þessari þjónustu að halda og fjölskyldur þeirra,” segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk.
Frétt af vef Sak.is
UMMÆLI