Geðheilbrigði, hvað er nú það?

Geðheilbrigði, hvað er nú það?

Þetta er risavaxin spurning og við henni eru til mjög mörg svör. Hún er samt sú spurning sem mér finnst eðlilegt að við spyrjum okkur sjálf á alþjóðlegum geðheilbrigðisdegi 10.október. Geðlæknar hafa kannski svör, sálfræðingar hafa jafnvel önnur svör, lærðir og leiknir hafa sín svör en þó hefur sjálfsagt enginn svarið sem við leitum að. Svarið sem sker úr um það hvorum megin við lendum við hina ósýnilegu línu sem skilur á milli þeirra sem eru heilbrigðir á geði og hverjir veikir. Ekki hef ég svarið enda ekki sérfræðingur í neinu nema að velta vöngum. Og ég velti sannarlega vöngum yfir spurningunni þótt ég hafi ekki fundið einhlítt svar.

Líklega er ekkert svar til við spurningunni enda sýnist mér að við séum í raun ekkert veikari á geði en samfélaginu finnst hverju sinni. Þ.e.a.s. það er ýmislegt annað sem sker úr um geðheilbrigði en raunverulegt hugarástand okkar og má þar nefna almenningsálitið alræmda. Fyrir ekki svo löngu síðan þótti sá sem sýndi lítið af tilfinningum vera einstaklega heilbrigður andlega en í dag er því öðruvísi farið. Í dag höfum við flest þá skoðun að það sé hollt að gangast við tilfinningum sínum og tala um þær og það sé merki um andlegt heilbrigði.

images

Fyrir nokkrum áratugum þekktum við ekki tengsl hormóna og taugaboðefna við andlega líðan og heimur geðveilu var dularfullur og ógnandi. Opinská umræða hefur hjálpað meira en flest annað og við þekkjum öll hvernig það að tala um það sem við hræðumst getur dregið úr óttanum,- og þar með úr fordómunum. Þegar við tölum um skrímslið undir rúminu virkar það ekki svo óttalegt lengur.

Fyrir nærri því fjórum árum síðan þurfti ég að safna öllum mínum kjarki til að stíga fram og viðurkenna andleg veikindi, örmögnun af völdum streitu. Ég þurfti að viðurkenna þá staðreynd að ég væri brotin og búin á því og það fannst mér erfitt. Það gerði mér þó gott þegar upp var staðið og það gerði mörgum öðrum gott að því að mér skildist. Í dag er umræðan um kulnun, streitu og örmögnun orðin mun algengari og enn er hún að gera þeim gott sem héldu að þeir væru þeir einu sem væru illa staddir af þeim sökum. Það er gott að deila með öðrum.Við erum að byrja að taka á viðhorfsvandanum sem samfélag og við eigum líklega mikið verk óunnið á því sviði. Öll erum við misjafnlega heilbrigð á geði á hverjum tíma, við veikjumst af depurð, streitu og kvíða alveg eins og við brjótum bein, fáum kvef og inflúensu. Það að draga veikindi í dilka og finnast ein tegund veikinda vera annarri rétthærri er undarleg hugmynd sem virðist koma langt aftur úr öldum.

Hjónabandsráðgjafinn Karen

Veikindi hvort sem stimplum þau andleg eða líkamleg geta átt uppruna til samfélagslegra aðstæðna af ýmsu tagi alveg og kulnun tengist oftast samkeppni og slæmum aðstæðum á vinnumarkaði. Við erum öll afsprengi uppeldis, eigin hugarfars og samfélagsins sem við lifum í. Ég horfði á nýjan íslenskan sjónvarpsþátt á sunnudagskvöldið um hjónabandsráðgjafann Karen og hennar fjölskyldu og mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar ég hugleiddi hversu nálægt raunveruleika íslensks samfélags þessir þættir fara.

Ungar konur (og sjálfsagt líka ungir menn) sem líkt og reyndar mín kynslóð gerði líka, reyna að búa til sprungulausa mynd af ofurfólki sem getur menntað sig, unnið sig upp í vinnu, sinnt börnum og áhugamálum ásamt því að eiga fallegt heimili. Nú hefur þó bæst við ýmislegt nýtt sem samfélagsmiðlar færðu okkur á „silfurfati”, fallegt heimili sem þolir að vera myndað og skoðað á Instagram, yfirborð á öllum sviðum sem hægt er að dásama á Facebook og stenst samkeppni á samfélagsmiðlum. Ferðalög, barnaföt, neglur, matarboð, hárgreiðsla, atvinna, líkamsrækt, hönnunarvörur, allt þetta sem hægt er að setja inn í hina miskunarlausu og gráðugu hakkavél samfélagsmiðlanna. Þvílík gegndarlaus pressa! Ekkert má vera venjulegt og hversdagslegt, allt á að vera einstakt. Ekkert skrýtið að við séum öll eins og ofurspenntir bogar sem bresta þegar síst skyldi. Við trúum því að likemerkin, hjörtun og upphrópanirnar „ooo sæta” og „duglega þú” snúist um raunverulegt gildi og virði og geri okkur elskuverð. Við gleymum því að við vorum einu sinni á sama stað og börnin okkar og barnabörnin sem hefja lífið sannfærð um að þau séu dásamleg og fullkomin og eru sátt í eigin skinni. Án þess að hafa fengið eitt einasta like á facebook. Enn hefur samfélagið ekki komið því inn að þau eigi að efast um sig sjálf og finnast ekkert nægilega gott sem þau eru eða gera. Ennþá þurfa þau ekki stanslausa viðurkenningu frá öðrum. Þannig vorum við líka einu sinni. Kannski getum við sem samfélag komið í veg fyrir fullt af veikindum og streitu ef við bara reynum að elska okkur sjálf og hvort annað svolítið meira á þann hátt sem við gerðum þá, raunverulega og einlæglega.

Og nú ætti ég líklega að hlú að eigin geðheilbrigði, hætta að velta vöngum og fá mér góðan kaffisopa. Eigið geðveikan dag kæru vinir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó