Gæludýr.is

Garðurinn hans Gústa formlega vígður í gærGuðrún Gísladóttir, eiginkona Ágústs heitins, og börn þeirra Júlíus Orri og Berglind Eva afhjúpuðu minnismerkið. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson/Akureyri.is.

Garðurinn hans Gústa formlega vígður í gær

Í gærmorgun var útikörfuboltavöllurinn, Garðurinn hans Gústa, formlega vígður við íþróttahús Glerárskóla og afhentur Akureyrarbæ.

Við sama tilefni var minnisvarði til heiðurs athafnamanninum og körfuknattleiksþjálfaranum Ágústi H. Guðmundssyni afhjúpaður við inngang vallarins. Ágúst hefði orðið 55 ára föstudaginn 26. ágúst síðastliðinn en hann féll frá langt fyrir aldur fram á síðasta ári. Það var fjölskylda Gústa sem afhjúpaði minnismerkið.

Inga Dís Sigurðardóttir, varaformaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, tók við sérmerktum körfubolta úr höndum vina Ágústar og afhenti boltann síðan Bjarka Ármanni Oddssyni, staðgengli sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs, og Ellerti Erni Erlingssyni, forstöðumanni íþróttamála hjá Akureyrarbæ.

Forsaga málsins er að snemma á síðasta ári réðust nokkrir vinir Ágústar í það verkefni að reisa veglegan útikörfuboltavöll við íþróttahús Glerárskóla honum til heiðurs. Ágúst er sigursælasti körfuknattleiksþjálfari Þórs frá upphafi og markaði djúp spor í sögu íslensks körfuknattleiks. Hann stýrði jafnframt flestum æfingum og leikjum í Glerárskóla og því staðsetningin vel við hæfi. Nafn vallarins – Garðurinn hans Gústa – er svo tilkomið vegna þess að Gústi var grjótharður Boston Celtics aðdáandi, en heimavöllur NBA liðsins er einmitt TD Garden og þar áður Boston Garden.

Garðurinn hans Gústa var tekinn í notkun í nóvember síðastliðnum og hefur verið afar vel nýttur. Fjöldi körfuknattleiksiðkenda sækir völlinn á hverjum degi og ríkir mikil ánægja með þennan fyrsta „alvöru“ útikörfuboltavöll landsins sem er norðan Glerár, vígi körfuboltans á Akureyri. Síðan völlurinn var tekinn í notkun er búið að reisa veglega þriggja hæða áhorfendastúku, setja upp ljósastaura, malbika og þökuleggja í kringum völlinn og reisa minnisvarðann, svo eitthvað sé nefnt.

Aðstandendur Garðsins hans Gústa söfnuðu um 10 milljónum til verkefnisins. Akureyrarbær lagði til það fé sem upp á vantaði. Margir einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki styrktu þetta sannkallaða samfélagsverkefni. Þá hafa verktakar og fyrirtæki heldur betur greitt götu verkefnisins með því að gefa vinnu sína og aðföng og/eða í formi ríflegs afsláttar. Loks eru ótaldir þeir fjölmörgu einstaklingar sem hafa lagt á sig mikla vinnu til þess að láta þessa hugmynd verða að veruleika. Án gjafmildi og fórnfýsi einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja hefði Garðurinn hans Gústa ekki risið.

Sambíó

UMMÆLI