Garðar Kári Garðarsson er einn af betri matreiðslumönnum landsins og jafnframt eini norðlenski meðlimur Íslenska kokkalandsliðsins. Garðar hefur unnið til fjölda verðlauna upp á eigin spýtur og með Kokkalandsliðinu en það keppti á Ólympíuleikum matreiðslumanna 2016 þar sem það lenti í 9.sæti og kom heim með ein gullverðlaun, tvenn silfur- og ein bronsverðlaun, sem er besti árangur íslenska landsliðsins hingað til.
Sérsníða matseðil að hverjum og einum gesti
Garðar Kári er um þessar mundir matreiðslumaður á Deplar Farm í Skagafirði, sem er í eigu fyrirtækisins Eleven Experience. Deplar Farm er lúxushótel sem hýsir aðeins 25-30 manns í einu og hver og einn gestur fær persónulega og einstaklingsmiðaða þjónustu.
„Fólkið sem kemur til okkar borðar bara á bestu stöðum í heiminum, það er vant því besta og margir hverir eru t.d. með einkakokk heima hjá sér. Við sérsníðum matinn að hverjum kúnna, sjáum bara hvað gesturinn vill og gerum matseðil fyrir hvern og einn út frá því. Við erum bókuð alveg fram í október. Þetta er mjög skemmtilegt, mikil áskorun og öðruvísi í hvert skipti,“ segir Garðar.
Á brons og silfur en stefnir nú á gullið
Garðar Kári hefur keppt í Kokkur ársins undanfarin tvö ár en keppnin er haldin ár hvert til að skera úr um hver er besti kokkur Íslands. Hann er mjög jákvæður fyrir keppninni í ár en sl. mánudag, 19. febrúar, var keppt í undanúrslitum. Þar kepptu aðeins átta matreiðslumenn en dómnefnd hafði valið átta bestu uppskriftirnar. Keppendur elduðu þrjá smárétti úr ýsu, grísakinn & kjúklingaskinni og rófum en aðeins fimm efstu keppendurnir komust áfram í úrslit og Garðar Kári var þar á meðal. Hann er einnig eini Norðlendingurinn í keppninni um Kokk ársins.
„Ég á brons og silfur og nú langar mig í fyrsta „gæjann“. Ég er mjög vel stemmdur og ætla mér bara að hafa gaman að þessu, það er eina markmiðið. Þetta eru mjög færir einstaklingar sem eru að keppa, þeir bestu á landinu, svo að þetta er bara spurning um hvert okkar á besta daginn. Þetta fer allt eftir því í hvernig dagsformi þú ert þannig að hver sem er getur unnið. En ég ætla að sjálfsögðu að negla þetta,“ segir Garðar og hlær.
Fá klukkutíma til að búa til þriggja rétta matseðil
Matreiðslumennirnir fimm munu svo keppa til úrslita í dag, laugardaginn 24. febrúar, í Hörpu. Ólíkt undankeppninni þá fengu matreiðslumennirnir fyrst í gær að vita hvað þeir munu matreiða á keppnisdaginn í dag.
„Kvöldið áður fengum við að vita öll hráefnin sem við eigum að nota í keppninni. Þá fengu allir einn klukkutíma til að setjast niður og skrifa upp matseðil og eftir að honum var skilað inn má engu breyta,“ segir Garðar.
Aðspurður hvort það sé ekki stressandi að fá svona stuttan tíma segir hann ekki svo vera. Þetta fyrirkomulag setji alla á sama stað í keppninni.
„Þetta setur alla á sama stað. Þá er enginn að hjálpa neinum og allir eru á sama byrjunarreit.“
Það er ekkert til sparað í keppnina en IKEA er einn stærsti styrktaraðilinn og setur upp eldhús fyrir hvern og einn matreiðslumann. Í dag hafa þeir svo fimm klukkutíma til að elda þriggja rétta máltíð fyrir 12 manns. Að því loknu verður lokahóf keppninnnar um kvöldið og Kokkur ársins formlega kynntur á svið í kvöld.
Viðtalið birtist upphaflega í Norðurlandi, fréttablaði 22. febrúar.
UMMÆLI