Galdragáttin frumsýnd í Samkomuhúsinu: „Hálf gáttuð á því sem við höfum skapað“

Galdragáttin frumsýnd í Samkomuhúsinu: „Hálf gáttuð á því sem við höfum skapað“

Á laugardaginn, 5. október, verður frumsýndur í Samkomuhúsinu á Akureyri nýr íslenskur fjölskyldusöngleikur, Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist eftir leikhópinn Umskiptinga með tónlist eftir Vandræðaskáld í útsetningu Kristjáns Edelstein. Verkið er unnið í samstarfi við Leikfélag Akureyrar og styrkt af Leiklistarráði Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

,,Þetta átti fyrst bara að verða svona lítil og krúttleg sýning sem fjallaði um íslenskar þjóðsagnaverur með fáeinum lögum, en verkefninu hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg og nú erum við hálf gáttuð á því sem við höfum skapað. Allar hliðar sýningarinnar, hvort sem þær snúa að leikmynd, búningum, tónlist, sviðshreyfingum, lýsingu eða hljóði eru umfangsmeiri en lagt var upp með í upphafi, sem er bara dásamlegt,“ segir Birna Pétursdóttir framleiðandi sýningarinnar og bætir því við að þegar lítill leikhópur gerir svona stóra sýningu þá hjálpist allir að. ,,Hér hafa allir í hópnum, hvort sem þú ert titlaður leikari, leikstjóri, framleiðandi eða hvað, setið og límt, skrúfað og neglt fram á nætur undanfarnar vikur og við erum stolt af samvinnunni, jákvæðninni og kraftinum í hópnum. Þetta hefði aldrei gerst annars.“

Leikstjórn er í höndum Agnesar Wild sem er Norðlendingum vel kunnug en hún leikstýrði bæði Fuglakabarettinum Krunk krunk og dirrindí og gamanleiknum Djáknanum á Myrká á síðasta leikári. ,,Nú  þegar frumsýning er að bresta á er ég bara spennt og þakklát fyrir hversu ótrúlega gaman það hefur verið að garfa í þjóðsagnaarfi okkar Íslendinga með leikhópnum og skoða þessar skemmtilegu en jafnframt drungalegu farandsögur og færa þær inn í nútímann okkar á skemmtilegan og skapandi hátt,“ segir Agnes.

Katrín Mist Haraldsdóttir sér um dans- og sviðshreyfingar en hún hefur unnið töluvert fyrir Menningarfélagið áður og hlaut meðal annars Grímutilnefningu 2016 fyrir dansinn í sýningunni Pílu Pínu sem sett var upp í Hofi. Auður Ösp Guðmundsdóttir annast leikmyndar- og búningahönnun en hún hlaut Grímutilefningar fyrir hönnun sína í söngleiknum Kabarett á síðasta leikári. Þá eru Lárus Heiðar Sveinsson ljósahönnuður og Gunnar Sveinbjörsson hljóðhönnuður, sem báðir hafa unnið við fjölda sýninga hjá Menningarfélaginu og mun víðar.

Atvinnuleikhópinn Umskiptinga skipa þau Birna Pétursdóttir, Jenný Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason. Leikhópurinn haut í kjölfar fyrstu sýningar sinnar tilnefningu til Grímunnar sem sproti ársins 2018. Umskiptingar fara með hlutverkin í sýningunni, ásamt Hjalta Rúnari Jónssyni og Jóhanni Axeli Ingólfssyni sem báðir léku hjá MAk á síðasta leikári

,,Það er búið að vera alveg frábært að vera í Samkomuhúsinu og vinna sýninguna í samstarfi við MAk, fá að nýta aðstöðuna hér og njóta leiðsagnar fólks sem er vel siglt í leikhúsbransanum,“ segir Birna aðspurð um hvernig samstarfið hafi gengið.

Um sýninguna:

,,Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist er æsispennandi fjölskyldusýning sem byggir á íslenska þjóðsagnaarfinum. Þar sjáum við kunnuglegar og áður óþekktar þjóðsagnapersónur á nýstárleagan og skemmtilegan hátt.“

Í Hringvallaskóla opnast fyrir algjöra slysni gátt inn í heim íslenskra þjóðsagna. Saklausum sjöundabekking, Jóni Árnasyni er í kjölfarið rænt af Húmskollunni skelfilegu svo bekkjarsystkini hans Sóley og Bjartur leggja upp í háskaför honum til bjargar. Við tekur æsispennandi atburðarás þar sem hinar ýmsu kynjaverur íslenskra þjóðsagna koma fyrir, Nykur, Skoffín og Skuggabaldur ásamt fleirum. Ná þau að bjarga Jóni Árnasyni? Er Nykrinum treystandi? Hver á augun í myrkrinu? Hver er þessi Húmskolla? Er einhver leið að komast lifandi aftur til mannheima?“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó