Fyrstu kandídatar í framhaldsnámi í stjórnun við Háskólann á Akureyri brautskráðirLjósmynd: Háskólinn á Akureyri / Sindri Swan

Fyrstu kandídatar í framhaldsnámi í stjórnun við Háskólann á Akureyri brautskráðir

Brautskráningu 88 kandídata var fagnað á Vetrarbrautskráningahátíð Háskólans á Akureyri á laugaradginn 15. febrúar síðastliðinn. Þar brautskráðist fyrsti hópurinn úr framhaldsnámi í stjórnun við Viðskiptadeild. Þetta kemur fram á heimasíðu Háskólans á Akureyri. Fyrstu stúdentar í þessu námi innrituðust í MS og MM nám haustið 2023 og eru því að útskrifast núna, en námið er eins og hálfs árs langt.

Einhildur Ýr Gunnarsdóttir brautskráðist með MM í stjórnun og flutti ávarp fyrir hönd kandídata. Í ávarpinu sagði Einhildur meðal annars: „Háskólinn á Akureyri býður bæði upp á staðnám og fjarnám og fyrir mig sem er eins og Norðlendingar kalla SAS, eða sérfræðingur að sunnan, var fjarnámið rétti kosturinn. Ég tók bæði BS- og MM-gráðuna í stjórnun í fjarnámi, samhliða vinnu, börnum og fjölskyldu. Fjarnám gefur nemendum möguleika á að samþætta nám við daglegt líf og opnar dyr fyrir þau sem annars gætu ekki sótt sér menntun. Það krefst aga og skipulags en veitir á sama tíma frelsi og sveigjanleika sem gerir margt mögulegt eins og það til dæmis að sækja tíma í náttfötunum.“

Sambíó
Sambíó