Þriðjudaginn 27. september kl. 17-17.40 mun grafíski hönnuðurinn Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir flytja fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins undir yfirskriftinni Túlkun og teikning. Sem fyrr er enginn aðgangseyrir á fyrirlestrana.
Í fyrirlestrinum gefur hún innsýn í vinnu og hugarheim grafísks hönnuðar og skoðar hvað þarf að hafa í huga þegar unnið er að firmamerki. Einnig mun hún sýna dæmi um notkun sína á teikningum í hönnunarverkefnum.
Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir útskrifaðist sem tækniteiknari frá Iðnskólanum í Reykjavík og síðar sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2014. Hún er starfandi grafískur hönnuður og rekur hönnunarstofuna cave canem ásamt eiginmanni sínum Finni Dúa Sigurðssyni, sem einnig er grafískur hönnuður.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Menntaskólans á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Jenný Lára Arnórsdóttir, leikstjóri, Kenny Nguyen, myndlistarmaður, Eyþór Ingi Jónsson, organisti, Tetsuya Hori, tónskáld, Rebekka Kühnis, myndlistarkona, og Kristinn G. Jóhannsson og Brynhildur Kristinsdóttir.
UMMÆLI