Gæludýr.is

Fyrsti nemendahópurinn brautskráður á námsbrautinni Færni á vinnumarkaði

Fyrsti nemendahópurinn brautskráður á námsbrautinni Færni á vinnumarkaði

Þann 17. desember síðastliðinn brautskráðust sex nemendur frá námsbrautinni Færni á vinnumarkaði hjá Símey. Boðið var upp á námsbrautina í fyrsta skipti nú á haustönn í öllum símenntunarmiðstöðvum landsins. Þetta kemur fram á vef Símey.

Námið byggir á námskrá sem var afrakstur verkefnis félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem hefur það að markmiði að auka náms- og starfstækifæri fyrir fólk með fötlun.

Við brautskráninguna lýsti Jenný Gunnarsdóttir verkefnastjóri og aðalkennari á þessari námsbraut náminu svo:

Þetta er samvinnuverkefni og skipulagt í samstarfi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar, Fjölmenntar og símenntunarmiðstöðvanna í landinu. Verkefnið var sett af stað með það að markmiði að tryggja aukin tækifæri fólks með fötlun til atvinnuþátttöku. Til þess að ná því markmiði var talið mikilvægt að bjóða upp á starfstengt nám þar sem einstaklingar gætu fengið viðeigandi stuðning á eigin forsendum enda sé nám og aðgengi að því undirstaða þess að auka tækifæri til atvinnuþátttöku og bættra lífsgæða. Til að byrja með vann Fræðslumiðstöð atvinnulífsins þarfagreiningar og út frá þeim urðu til sex svokallaðir starfaprófílar. Verkefnið miðar að því að fólk fái fræðslu og þjálfun í starfi sem fellur undir þessa starfaprófíla. Störfin sem um ræðir eru í leikskóla, við umönnun, störf á lager, við endurvinnslu, þrif og þjónustu og í verslun. Verkefnið fór þannig fram að nemendur sóttu 70 klukkustunda fræðslu til okkar hér í SÍMEY yfir haustönnina og luku 110 tíma starfsþjálfun á vinnustað. Að námsmati loknu fá nemendur diplómu frá okkur í SÍMEY auk fagbréfs atvinnulífsins.
Þetta er tilraunaverkefni og alveg nýtt úrræði og því vorum við öll að renna blint í sjóinn. Það er alltaf krefjandi að hefja nýtt verkefni, því fylgir ákveðin óvissa að hefja nýtt nám eða byrja á nýjum vinnustað. Og hvað þá þegar skipuleggjendur og kennarar eru að gera hlutina í fyrsta skipti. Ég er mjög stolt af þessum nemendahópi sem hefur tekist á við þetta verkefni af mikilli jákvæðni og opnum hug og sýnt mikla þolinmæði gagnvart þeim hnökrum sem óhjákvæmilega fylgja slíku tilraunaverkefni.

Nánar á Símey.is

Sambíó
Sambíó