Fyrsti keppnisdagur Scandinavian Cup í Hlíðarfjalli

Fyrsti keppnisdagur Scandinavian Cup í Hlíðarfjalli

Fyrsti keppnisdagur á alþjóðlega skíðamótinu Scandinavian Cup fór fram með í gær og var keppt í sprettgöngu með frjálsri aðferð í flokkum karla og kvenna.

Margt að öflugasta skíðagöngufólki Norðurlanda var mætt til keppni í Scandinavian Cup í Hlíðarfjalli í gær og gengu konur 1,2 km og karlar 1,4 km með frjálsri aðferð (skauta aðferð).  Fyrst er keppt í forkeppni þar sem allir þátttakendur reyna sig við að komast í útsláttarkeppnina sem fer fram sem riðlakeppni þar sem tveir úr hverjum riðli halda áfram þar til komið er að úrslitum.

Aðstæður voru góðar – logn og létt snjókoma.  Brautir voru þéttar en snjókoman gerði það að verkum að færið var aðeins hægara en hefur verið undanfarna daga.

Mikill hraði var í brautunum og reyndust þær keppendum nokkuð erfiðar, en nokkuð var um byltur og stafabrot eins og gerist gjarnan í þéttri baráttunni í útsláttarkeppninni. 

Þetta er í fyrsta skipti sem keppni af þessari stærðargráðu er haldin á Íslandi og létu keppendur vel af aðstæðum og mótahaldi.  Auk áhorfenda í Hlíðarfjalli fylgdust um 2000 manns með keppninni í gegnum streymi þar sem keppninni var gerð góð skil.

Sigurvegarar dagsins koma frá Noregi, en Norðmenn eru með gífurlega öfluga keppendur á mótinu á Akureyri.

Í dag, sunnudag er keppt í 15 km göngu karla og kvenna með hóp ræsingu.  Mótshaldarar hvetja áhugasama til að koma og berja augum marga af frambærilegustu skíðamönnum og konum Norðurlanda, og að sjálfsögðu til að hvetja okkar fólk í íslenska landsliðinu.

Scandinavian Cup er mótaröð á vegum Alþjóða Skíðasambandsins (FIS) sem haldið er á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum á hverju ári.  Í ár hafa farið fram mót í Beitostölen í Noregi, Falun í Svíþjóð, Otepää í Eistlandi og mun síðasta mótið fara fram á Akureyri.  Mótið er gríðarlega sterkt og hingað mæta skíðagöngumenn sem m.a. hafa verið að taka þátt í heimsbikarmótum í ár.  Þetta er í fyrsta skipti sem Scandinavian Cup er haldið á Íslandi og má því sannarlega segja að þetta sé allra sterkasta skíðagöngumót sem haldið hefur verið hér á landi.

Til leiks eru skráðir tæplega 70 skíðamenn og konur frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi, Litháen, auk þess sem íslenska landsliðið tekur allt þátt í mótinu. Því til viðbótar má búast við fjölmennu liði þjálfara og aðstoðarfólks. Undirbúningur hefur staðið yfir í heilt ár til að kappkosta að allt gangi sem best þegar að mótahaldi kemur – en m.a. þarf að huga að gistingu, mat, ferðalögum, áburðaraðstöðu, brautum, mótsskrifstofum, o.fl. sem ekki flokkast beint til keppnishaldins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó