NTC

Fyrsti deilibíllinn tekinn í notkun á Akureyrimynd: Akureyri.is

Fyrsti deilibíllinn tekinn í notkun á Akureyri

Fyrsti deilibíllinn er mættur til Akureyrar og er kominn í notkun. Það er fyrirtækið Zipcar sem leigir bílinn út til einstaklinga og kostar stakur klukkutími 2.000 kr. án áskriftar. Bílinn er staðsettur í miðbænum, á horni Skipagötu og Hofsbótar. Þar mun bílinn verða leigður út og þarf að skila honum á sama stað aftur.

Deilibíllinn verður aðgengilegur hér á Akureyri í að minnsta kosti sex mánuði í tilraunaskyni. En fyrir er Zipcar með 13 bíla í notkun á Höfuðborgarsvæðinu.

Akureyrarbær tekur þátt í tilraunaverkefni um áhrif þess að innleiða deilibílaþjónustu. Verkefnið er leitt af verkfræðistofunni EFLU í samstarfi við Zipcar deilibílaleigu, Akureyrabæ, Garðabæ og Hafnarfjörð með styrk frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Nánar hér.

Góð viðbót við samgönguflóruna

Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, tók formlega á móti bílnum í vikunni. „Þetta er áhugavert verkefni sem er ánægjulegt fyrir okkur að taka þátt í. Deilibíllinn eru spennandi valkostur sem bætist við fjölbreytta samgöngukosti sem fyrir eru á Akureyri. Vonandi verða viðtökur bæjarbúa svo að þessi þjónusta verði í boði til frambúðar,“ segir Andri á vef Akureyrarbæjar.

„Fyrst og fremst er Zipcar umhverfisvænn kostur sem fækkar einkabílum og brúar bilið fyrir þá sem kjósa að eiga ekki bíl eða vilja jafnvel losa sig við einkabílinn en þurfa stundum bíl í snattið,“ segir Arnþór Jónsson sölustjóri Zipcar á Íslandi. 

Getur leyst af hólmi 13 einkabíla

„En þess má einnig geta að samkvæmt rannsóknum getur hver Zipcar tekið allt að 13 einkabíla úr umferðinni sem þá minnkar að sama skapi þörf fyrir bílastæði og eykur þá pláss fyrir græn svæði og fallegra umhverfi. Hægt er að bóka bílinn á öllum tímum sólarhrings alla daga vikunnar,“ segir Arnþór og bætir við að bíllinn sé opnaður með appinu í símanum og læst aftur að lokinni notkun. 

Arnþór segir að þessi þjónusta nýtist einkum þeim sem noti almenningssamgöngur, hjóli, eða labbi til vinnu og geti þá leigt bílinn í næsta nágrenni við vinnustað eða heimili. „Okkar von er að geta tekið þetta verkefni lengra og stutt þannig við fækkun einkabíla á Akureyri og aðstoðað þannig bæinn við að minka kolefnissporið. Við erum nú þegar komin í viðræður við fyrirtæki og stofnanir um að auka við framboð bíla á Akureyri í náinni framtíð. Við vonum að íbúar og fyrirtæki í nágrenni við bílinn nýti sér þennan fyrsta bíl næstu vikur og mánuði svo við getum haldið þessum fyrsta bíl áfram og bætt öðrum við í þessum fallega bæ að tilraunaverkefni loknu,“ segir Arnþór.

mynd: Akureyri.is
Sambíó

UMMÆLI