NTC

Fyrsta verslun Blush utan höfuðborgarsvæðisins

Fyrsta verslun Blush utan höfuðborgarsvæðisins

Kynlífstækjaverslunin Blush opnaði á Glerártorgi á Akureyri fyrr í dag. Þetta er aðeins önnur verslun Blush og sú fyrsta utan höfuðborgarsvæðisins. Gerður Arinbjarnardóttir eigandi Blush segir opnun verslunarinnar vera mikil tímamót í viðtali á vef Glerártorgs.

„Það hefur verið eftirspurn fyrir því að fá Blush norður í mörg ár og við höfum lengi gælt við það að koma norður. En maður þarf alltaf að finna réttu tímasetninguna og aðstæðurnar og loksins er það komið núna. Svo er ég náttúrulega sjálf frá Akureyri og hef alltaf haft mjög sterka strauma norður. Heima fyrir mér hefur alltaf verið Akureyri. Þannig þetta er fullkomið tækifæri og núna hefur maður meiri afsökun til að koma oftar norður,“ segir Gerður á glerartorg.is.

Hún segir að verslunin á Glerártorgi verði nokkurs konar minni útgáfa af versluninni í Kópavogi og verði með um 70% af vöruúrvalinu sem er fyrir sunnan. Gerður segir mikinn metnað hafa verið lagðan í innréttingar og útlit verslunarinnar.

„Það er ekki þannig að við séum að opna einhverja ódýrari útgáfu hér, heldur verður búðin jafn falleg ef ekki fallegri fyrir norðan. Staðsetningin er frábær og ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem kynlífstækjaverslun hefur opnað í verslunarmiðstöð. En á sama tíma erum við á hliðinni á húsinu og erum með sérinngang. Þannig við erum með þetta „privacy“ sem kannski einhverjir vilja og það gefur okkur líka meiri sveigjanleika, því við getum stjórnað okkar opnunartíma meira sjálf. Af því að þetta rými var laust þá fannst okkur ekki neitt annað koma til greina en að vera á Glerártorgi þar sem stemmingin og stuðið er. Við teljum að Glerártorg sé að fá svolítið nýtt líf og andlitslyftingu og þá er ekki verra að fá kynlífstækjaverslun. 

Gerður segir að netverslun Blush muni ennþá starfa frá Kópavogi og senda út um allt land. En nú geti Akureyringar komið í verslun og skoðað tækin, fundið áferðina og titringin sem skiptir afar miklu máli við val á kynlífstæki.

„Ég hef mikla trú Akureyringum og Norðurlandinu og að þau séu tilbúin að fá kynlífsverslun í sinn landshluta. Það er engin önnur kynlífstækjaverslun hér eins og er. Það sem kemur líka mörgum á óvart er að verslunin okkar fyrir sunnan er stærri en netverslunin. Þannig hugmyndin sem við höfðum fyrir einhverjum árum, um að fólk vilji ekki fara inn í kynlífstækjaverslanir, er svolítið farin. Þetta er ekki jafn mikið feimnismál og það var. Viðhorf til kynlífstækja hefur breyst mjög mikið og okkur hefur tekist á góðan hátt að taka ímyndina upp á hærra plan.“

Gerður segir margt á döfinni hjá Blush og nýjar og spennandi vörur á leiðinni.

„Það var að koma ný vara frá Womanizer, stærsta og þekktasta vörumerki í heiminum þegar kemur að kynlífstækjum, sem verður áberandi í nýju versluninni. Svo erum við í vöruþróunarferli fyrir Reset, vörumerkið sem við hönnum sjálf og við gerum ráð fyrir að það komi nýjar Reset-vörur núna á síðari hluta árs. Svo seinna meir munum við bjóða upp á heimakynningar og sölubása eins og við gerum fyrir sunnan. Þannig það er alltaf eitthvað um að vera hjá okkur og ég myndi segja að við værum ein metnaðarfyllsta kynlífstækjaverslun sem fyrirfinnst. Við viljum hafa verslunina frábæra, flotta og aðlaðandi með góða þjónustu og fjölbreytt vöruúrval.

En við hverju mega Akureyringar búast með tilkomu verslunarinnar?

Það er einna helst upplifun. Það hefur alltaf verið okkar grunngildi, upplifun og ævintýri og það er það sem við leggjum upp með versluninni fyrir norðan. Að það verði notalegt og að fólki langi til þess að koma.

Afgreiðslutíminn á Glerártorgi: 
Mánudaga – Laugardaga: kl. 12:00 – 18:00
Sunnudagar: Lokað

Viðtal af vef Glerártorgs

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó