Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins, Le Dumont Durville, kom til Grímseyjar föstudaginn 18. júní með viðkomu á Akureyri daginn eftir. Um borð voru 140 farþegar og 110 manna áhöfn. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.
Þar segir að skipið sé á vegum franska fyrirtækisins Ponant sem hefur skipulagt siglingar um Ísland til margra ára og var eina útgerðin sem bauð upp á siglingar við Ísland í fyrra.
„Sumarið gefur ágæt fyrirheit um viðspyrnu í komu skemmtiferðaskipa eftir heimsfaraldur Covid-19. Skipafjöldinn stefnir í um 60 til 90 á svæði Hafnasamlags Norðurlands og af þeim fara um 30 til Hríseyjar og Grímseyjar. Tekjurnar af skipakomunum verða þó ekki nema 15 til 20 prósent af því sem hefði orðið á eðlilegu ári enda nánast eingöngu minni skip sem koma til hafnar að þessu sinni,“ segir í tilkynningu bæjarins.
Hægt er að skoða yfirlit yfir skipakomur á heimasíðu Hafnasamlagsins port.is, búast má við einhverjum breytingum á yfirlitinu fram eftir sumri þar sem nokkuð er um breytingar hjá skipafélögunum á áætluðum ferðum og þeim jafnvel hætt.
UMMÆLI