Akureyrski rapparinn Saint Pete (Pétur Már Guðmundsson) vinnur nú, ásamt félaga sínum Klean (Hreinn Orri Óðinsson) að sinni fyrstu plötu. Saint Pete greindi Kaffinu frá því rétt í þessu að sú plata sé væntanleg þann 26. júlí næstkomandi. Þegar fréttaritari hringdi í hann í dag var hann staddur í Reykjavík þar sem hann vinnur að því að leggja lokahönd á plötuna sem send verður í hljóðblöndun í næstu viku, fari allt eftir áætlun.
Um er að ræða plötu í fullri lengd, um 8-10 lög og þó Pétur hafi ekki viljað gefa upp nein nöfn sagði hann að búast mætti við „vel sterkum gestalista,“ þar á meðal „einhverjar raddir sem fólk kannast við.“ Platan er pródúseruð af Hrein Orra Óðinssyni og Þormóði Eiríkssyni og framleidd í samstarfi við STICKY, plötuútgáfu á vegum Priksins.
Saint Pete og Klean hafa gert það gott í rappheiminum undanfarið og hafa komið fram með sumum af vinsælustu röppurum landsins á borð við Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauta. Saint Pete hefur þó aðeins formlega gefið út eitt lag. Það er lagið Akureyri sem kom út í lok desember í fyrra og hægt er að hlusta á í spilaranum hér að neðan.
UMMÆLI