NTC

Fyrsta plata Saint Pete væntanleg 26. júlí

Fyrsta plata Saint Pete væntanleg 26. júlí

Akureyrski rapparinn Saint Pete (Pétur Már Guðmundsson) vinnur nú, ásamt félaga sínum Klean (Hreinn Orri Óðinsson) að sinni fyrstu plötu. Saint Pete greindi Kaffinu frá því rétt í þessu að sú plata sé væntanleg þann 26. júlí næstkomandi. Þegar fréttaritari hringdi í hann í dag var hann staddur í Reykjavík þar sem hann vinnur að því að leggja lokahönd á plötuna sem send verður í hljóðblöndun í næstu viku, fari allt eftir áætlun.

Um er að ræða plötu í fullri lengd, um 8-10 lög og þó Pétur hafi ekki viljað gefa upp nein nöfn sagði hann að búast mætti við „vel sterkum gestalista,“ þar á meðal „einhverjar raddir sem fólk kannast við.“ Platan er pródúseruð af Hrein Orra Óðinssyni og Þormóði Eiríkssyni og framleidd í samstarfi við STICKY, plötuútgáfu á vegum Priksins.

Saint Pete og Klean hafa gert það gott í rappheiminum undanfarið og hafa komið fram með sumum af vinsælustu röppurum landsins á borð við Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauta. Saint Pete hefur þó aðeins formlega gefið út eitt lag. Það er lagið Akureyri sem kom út í lok desember í fyrra og hægt er að hlusta á í spilaranum hér að neðan.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó